31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (425)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Með þessu frv. er aðallega ætlað að bæta úr tveim göllum, Sem taldir eru helztir á aðflutningsbannalögunum frá 30. Júlí 1909. Þau lög þykja mörgum full ströng, þar sem alls engum er heimilað að flytja áfengi hingað til landsins, öðrum en þeim sem nefndir eru í 2. gr. laganna. Finst mörgum þetta vera óþarflega strangt til þess að fullnægja tilgangi laganna — þeim sem sé, að verja Íslendinga fyrir illum áhrifum áfengis. Harðast kemur þetta aðflutningsbann niður á þeim mönnum, sem útlendar stjórnir senda hingað til þess að gæta hagsmuna sinna hér um óákveðinn tíma eða á sendiræðismönnunum, en þeir eru hér að eins 2, eins og kunnugt er. Þeir eru slíku banni óvanir og kunna því illa. — Þeim kemur þetta sérstaklega illa af því að þeir ráða því ekki, hve lengi þeir eru hér í landinu og geta því ekki birgt sig með borðvínum kannske til margra ára, enda yrðu birgðirnar þeim ónýtar þó að þeir gætu komist yfir þær, ef þeir væru kallaðir burtu alt í einu eins og oft kemur fyrir um slíka menn. Og ekki ætti bannmálinu að standa nein hætta af slíkri undanþágu, því að eigi þarf að óttast misbrúkun af þeirra hendi. Þeir fá ekki nema ársforða til heimilisnautnar og eru vitanlega háðir eftirliti umsjónarmanns áfengiskaupa, enda verða þeir menn ekki einungis að gæta sóma sinn, heldur og jafnframt og ekki síður sóma sendilandsins.

Jafnframt því sem mönnum finnast aðflutningsbannslögin óþarflega ströng að þessu leyti, hafa augu manna sérstaklega eftir nýgenginn yfirréttardóm opnast fyrir því, að þeim er óhæfilega ábótavant. Landsyfirdómurinn hefir dæmt mann sýknan saka fyrir það að hafa flutt áfengi í land úr skipi, sem lá á höfn. Ekki skal hér farið út í, hvort dómurinn sé réttur eða ekki, en hvort eð heldur er, þá, verður samt farið eftir honum, meðan honum er ekki raskað. Með þessu er það bersýnilegt, að bannlögin eru gagnslaus, að minsta kosti þangað til árið 1915 og jafnvel lengur. Menn geta eftir þessu keypt svo mikið af áfengi, sem geta leyfir, hvers konar áfengi sem er og á hvaða höfn sem er, hringinn í kring um alt land. Hér þarf bráðnauðsynlega úr að bæta, ef bannlögin eiga að koma að nokkru haldi. Það er mergurinn málsins, enda er frumvarpið sérstaklega borið fram til að bæta hér úr skák og einmitt þess vegna stutt af bindindismönnum og bannvinum. Þeim er vitanlega ósárara um undanþágu til handa 2 útlendingum en um bannlögin.

Þá fer frumvarpið því fram, að stjórnin megi veita útlendingum, sem vinna verk í þarfir landsins, undanþágu frá aðflutningsbanninu og er þar átt við mælingamenn herforingjaráðsins. Okkur flutningsmönnum er ekki fast í hendi um þetta atriði, tókum það með af því að heppilegra virðist að undanþágur séu veittar í lagaleyfi en í lagaleysi, svo sem nýlega hefir skeð.

Sama máli gegnir um annan erindisrekstur útlendra stjórna en sendiræðismensku, og er þar aðallega átt við menn á herskipum sem hingað koma.

Önnur aðalbótin á bannlögunum frá 1909 er ákvæðið um, að öðrum megi ekki veita undanþágur, en þeim sem lögin beint heimila. Það hefir þótt brenna við, bæði í tíð fyrverandi stjórnar og núverandi, að undanþágur hafi verið veittar um lög fram.

Að endingu vil eg geta þess, að það gleymdist að taka það fram í frumv., að lögin öðlist gildi þegar konungur staðfestir þau og mun bætt úr því með br.till. við næstu umræðu. Vona eg svo að háttv. deild taki málinu vel. Það gerir tvent í einu, að bæta bannlögin og sýna góðum gestum okkar sjálfsagða kurteisi.

Mér er sama hvort það verður sett í nefnd eða ekki.