31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í C-deild Alþingistíðinda. (426)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherrann (H. H.):

Fyrst hv. flutningsm. (L. H. B.) gat þess ekki, vil eg skýra frá því, að stjórninni hefir borist málaleitun frá stjórn Frakka, sem gengur í þá átt, að óska þess, að sendiræðismanni Frakka sé af alþjóðakurteisi veitt undanþága frá banninu gegn innflutningi á vini til heimilisþarfa, og hafa áður komið fram erindi um þetta frá inum útsendu konsúlum, sem eru hér í bænum. Af því að síðasta bréfið um þetta, sem á rót að rekja til frakknesku stjórnarinnar, kom of seint hingað til þess stjórnin gæti lagt fram frv. þess efnis, sneri stjórnarráðið sér til fjárlaganefndarinnar með beiðni um, að hún tæki upp á einhvern hátt tillögur eða frumvarp um þessa undanþágu, og er eg háttv. formanni fjárlaganefndarinnar þakklátur fyrir það, að hann hefir tekið að sér flutning málsins.

Þetta er í samræmi við þær tilhliðranir, sem aðsendum erindrekum framandi ríkja er sýndur annars staðar og af slíkri undanþágu getur ekki stafað nein hætta fyrir framkvæmd bannlaganna.

Með því að hér er um svo örlitlar breytingar að ræða, finst mér óþarft ákvæðið í síðustu grein frumv., að gefa skuli út öll bannlögin aftur í nýrri útgáfu fyrir þessa skuld. Það er að eins óþörf fyrirhöfn og kostnaður og vona eg að háttv. flutningsm. sé þetta atriði ekki neitt kappsmál. Finst mér eðlilegast að bannlögin séu látin halda sinni gömlu frægu dagsetning. Þessi viðaukalög geta vel staðið út af fyrir sig.