31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (428)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flutningsm. (Lárus S. Bjarnason):

Eg vil geta þess, út af orðum háttv. ráðherra (H. H.), að þetta frumv. var samið áður en nokkur tillaga frá honum þess efnis var komin fram. (Ráðherra: Þetta er ekki rétt). Jú, enda kemur frumvarpið ekki frá fjárlaganefndinni. Við flutningsm, frumvarpsins höfum aldrei séð tilvitnuð tilmæli frá Frakkastjórn. Hins vegar efast eg ekki um að þau séu til.

Það er rétt til getið, að mér er ekki kappsmál um það, hvort breyting okkar háttv. 2. þm. Rvk. (J. J.) verður feld inn í bannlögin, en á hinn bóginn sé eg enga ástæðu til þess að hlífa stjórninni við þeirri vinnu, sem það hefir. í för með sér að láta prenta bannlögin upp á ný.

Um væntanlega tillögu frá hv. sessunaut mínum ætla eg ekki að tala að þessu sinni. Vona að ekkert verði úr henni. Andbanningar ættu að una því vel, að lögin verði reynd að fullu, því það er ekki hægt að dæma þau til dauða með réttu, fyr en þau hafa reynst illa.

Annars skal eg ekki eyða fleiri orðum að frumvarpinu í þetta sinn. Aðeins finst mér, að einkum lögreglustjórar, sem kvarta undan að lögin séu illframkvæmanleg, ættu að taka vel bótum á þeim. Mér skal vera ánægja að etja við háttv. sessunaut þegar tillagan hans kemur. Og lýk svo máli með ósk um að deildin leyfi frumvarpinu til 2. umræðu.