01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (438)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Benedikt Sveinsson:

Eg hefi leyft mér að bera fram breytingartill. á þgskj. 210 ásamt tveim öðrum þm. í þá átt, að fjárveitingin til flokksfundarhaldsins hér í Reykjavík í síðastliðnum Desember verði feld í burtu. Vér teljum það ilt fordæmi, sem með þessu er gefið, að meirihlutaflokkurinn geti haldið flokksfundi sina á alþjóðar kostnað. Það hefir verið rengt, að hér hafi verið um flokksfund að ræða, og því haldið fram, að á þessum fundi hafi setið þingmenn úr fleiri flokkum en sambandsflokknum einum. Á fundinum voru bæði þingmenn og utanþingsmenn, og sannleikurinn er sá, hvað sem hver segir, að vandlega var sneitt hjá því að boða á fundinn þá alþingismenn, sem verið höfðu í öðrum flokki á síðasta þingi, þótt þeir væri hér í bænum og líklega eins auðgert að ná til þeirra, eins og manna austan úr Seyðisfirði, Fljótshlíð eða ofan úr Hvítársíðu. En það eitt skildi, að þeir voru ekki flokksmenn, og því máttu þeir ekki koma á fundinn. Að vísu voru tveir eða þrír menn utan flokksbanda boðaðir á fund þenna, en einmitt í því trausti, að þeir mundu vinnast í flokkinn, enda hefir það tekist um einn þeirra síðan. Fundurinn var því helzt sú tegund flokksfunda, sem nefndir eru »útbreiðslufundir«, og fæ eg ekki séð að það sé hóti réttmætara fyrir þá sök að borga kostnaðinn við hann úr landssjóði.

Það hefir verið sagt, og það er rétt, að meiri hlutinn á þingi hafi falið stjórninni í fyrra að reka erindi flokksins í sambandsmálinu suður í Danmörku. En hvað lá á að kunngera erindislokin fyr en Alþingi kom saman? Alþingi hafði falið stjórninni málið og það eitt átti heimtingu á að heyra málalokin. Auk þess var það vitanlegt hæstv. ráðherra, að hann var sendur til þess að komast að betri kjörum en fengust 1908. Hitt var honum gersamlega heimildarlaust og beint óleyfilegt að ljá sig til þess að taka í mál að flytja hingað uppkastið gamla, og þó allra helzt enn verri tilboð frá Dönum. Var ástæða til að verja landafé til þess að boða flokksmönnum, að hann hefði farið verr en erindisleysu, og að hann hefði fyrir sitt leyti gengið að smánarboðum Íslandi til handa, sem hann mátti vel vita, að fáir mundu vilja líta við, jafnvel innan flokksins? Gat hann að minsta kosti ekki látið sendibréf nægja, ef einhverjum bráðlá á fregninni ?

Annars er breyt.till. hv. þm. S.-Múl. (J. Ól.) góð, og ef hún fær góðar undirtektir, leggjum við ekki svo mikla áherzlu á að okkar tillaga verði samþykt. Aðalatriðið fyrir okkur er ekki það, að horfa í þessi 700 króna fjárútlát landssjóða, heldur að fá viðurkent, að fjárgreiðslan sé röng og að girða fyrir slíkar aðfarir framvegis.