01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (439)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Einar Jónsson:

Eg get ekki séð að hægt sé að komast hjá því að samþykkja þessa fjárveitingu. Mig langar til að gera háttv. þm. skiljanlegt, að mínu atkvæði í þessu máli ræður ekki eigingirni, þó að eg væri einn af þeim mönnum, sem boðaðir voru á fundinn. Eg hefði álitið, jafnt fyrir það þó ekki hefði náðst til mín, alveg sjálfsagt fyrir háttv. ráðherra, að kalla saman þingmenn, þá sem tök voru á að boða, til viðtals, þar sem um jafnmikilsvarðandi mál var að ræða. Hann gat ekki tekið neina ákvörðun um það upp á sitt einsdæmi.

Eins og háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.) gat um, er fjárveitingin ekki ægilega stór, svo að fyrir þá sök er naumast ástæða til að setja sig upp á móti henni.

Um hitt, sem sami háttv. þm. (B. Sv.) sagði, að nógur tími hefði verið að skýra frá málinu þegar á þing var komið, get eg ekki verið honum samdóma. Það var einmitt mjög mikilsvert að fá að vita, hvort nokkuð væri hægt að gera áður en þingið kom saman. Það verða allir að skilja, að sjálfsagt var fyrir háttv. ráðherra að fá að heyra undirtektir þingmanna svo fljótt sem unt var. Þó að háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.) segði, að hann hefði átt að geta vitað undirtektirnar þegar hann hafði séð erindislokin, þá er það hrein og bein fjarstæða. Hæstv. ráðherra gat ekki dæmt um það einn og hafði ekki leyfi til að dæma um það, sérstaklega fyrir þá sök, að þingið hafði falið honum erindið. Eg sé því ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi gert hárrétt í þessu máli. Um það má þræta, hvers vegna háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) var ekki boðið strax á fundinn. En eg býst við að öllum skiljist, að það var vitanlegt fyrirfram, að hann hefði sett sig upp á móti hverju því sem fyrir hefði legið, úr því að það hét sambandsmál.

Þetta var það sem eg vildi sagt hafa. Fyrir þær ár ástæður, sem eg hefi nú greint, get eg ekki fallist á breyt.till. á þgskj. 210. Vona eg að öllum skiljist, að mér gengur ekki eigingirni til þess að hafa farið þessa för, þar sem eg var að eins fyrir tveim dögum kominn heim hér frá Reykjavík þegar eg var kvaddur á þennan umrædda fund. Hefði eg miklu fremur viljað vera heima kyr, en fanst eg ekki hafa leyfi til þess vegna afstöðu minnar til sambandsmálsins, en finn á hina hliðina enga skyldu á því, að fá ekki borgun fyrir ómakið.