05.07.1913
Neðri deild: 4. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (44)

13. mál, vörutollur

Björn Kristjánsson:

Eg vildi leiða athygli að einstaka fleiri vörutegundum, sem nauðsyn er á, að færðar séu til, t. d. sóda og kitti, sem ættu að vera í ódýrasta flokki. Þessar vörur standa sérstakar á farmskrá, svo engin hætta er, á að svikum verði komið að. Netjakúlur sást mér alveg yfir þegar frv. 1911 var samið, og það var fyrir þá sök, að þá var alveg hætt að flytja þær til landsins. Nú er notkun þeirra orðin mikil aftur. Netjakúlur eru svo ódýrar, að sjálfsagt er að telja þær í ódýrasta flokki.

Þá er ein vörutegund, sem ilt er að nokkur skattur sé lagður á. Það er síld til beitu. Til Vestmannaeyja hefir verið sendur skipsfarmur með beitusíld. Þetta er bæði svo nauðsynleg vara og svo þung í sér, að vörutollurinn kemur hart niður á henni, ætti því að vera undanþegin öllu gjaldi.

Viðvíkjandi frv. sjálfu skal eg taka það fram, að eg tel það afar-varhugavert að breyta lögunum þannig. Aðalkosturinn við vörutollslögin er það, að svo örðugt er að fara í kringum þau. En ef þessar breytingar komast á, er brotið í bág við aðalgrundvöll þess. Hvaða tollgæzlumaður á landinu getur t. d. sagt, hvort segldúkur er í vefnaðarvörupakka eða t. d. enskt leður. Auk þess er það ekkert óskapa gjald, sem kemur niður á segldúknum, ein 2–21/2%. Eg hefi rannsakað það nákvæmlega. Jafn erfitt er að sjá um, að svik verði ekki höfð í frammi, ef skilja á netjatvinna frá öðrum tvinna. Það er aldrei sundurgreint á framskrá. Aftur á móti er seglgarn ávalt talið serstakt á farmskrá, svo það má gjarna færa til. Sama er um lausar umbúðir. En um strigann er sama að segja og um segldúkinn.

Viðvíkjandi mottunum er það að segja, að á farmskrá er venja að nefna allskonar mottur einu nafni. Hér er auðvitað átt við mottur til fiskiumbúða, en þá þarf að taka það fram. Það er engin ástæða til að færa niður gjald á mottum, sem hafðar eru fyrir framan húsdyr, eða öðru því er þetta heiti hefir. Annars má geta þess, að nú er hér um bil alveg hætt að nota mottur til fiskiumbúða.

Að endingu Vil eg taka það fram, að ef lögunum er ætlað að gilda lengur en til 1. Jan. 1915, Verður að geta þess í frv. því að þó að þessar breytingar verði gerðar, falla þau engu síður úr gildi fyrir það, ef engar ráðstafanir eru gerðar til annars. Mig minnir að lögin gildi ekki lengur.