01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (440)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Valtýr Guðmundsson:

Eg mintist á það við 2. umr., að þetta atriði, sem nú er talað um að breyta, væri mjög svo athugavert. Eg hefi ekki getað sannfærst um annað en að svo væri, af þeim andmælum, sem fram hafa komið.

Háttv. framsögm. fjárlaganefndarinnar (P. J.) tók fram, að það væri ófyrirsynju, að þessu atriði væri breytt, þar sem hér væri ekki um flokksfund að ræða, heldur hefði fundurinn verið bein afleiðing af ákvörðun þingsins. Þessu neita eg algerlega. Það var einmitt tekið fram á flokksfundi í Sambandsflokknum af ráðherra sjálfum, að hann skyldi senda þingmönnum skýrslu um málalokin. Á hinu lá ekki, og var engin ástæða til að kalla saman flokksfund. T. d. Var engin þörf á að kalla þingmenn frá Seyðisfirði hingað til Reykjavíkur til þess eins að heyra þeirra skoðun, af því ráðherra kom á Seyðisfjörð og gat talað við þá þar. En hann vildi einmitt fá þá á flokksfund. Eg verð að leyfa mér að halda því fram, að það sé rétta nafnið á fundinum, því að þeir einir voru á hann kallaðir, sem kunnugt var um, að voru hlyntir málinu sem fyrir lá, og það jafnvel allmargir utanþingsmenn, en þeir þingmenn aftur á móti ekki, sem grunaðir voru um að vera á móti því, þótt þeir væru í sjálfri Reykjavík og ekkert kostaði að kalla þá á fundinn. En auðvitað var, að þar sem hér var um stórt velferðarmál fyrir alt landið að ræða, þurfti báðum pörtum jafnt að gefast kostur á að kynnast málinu, ef þjóðinni hefði átt að verða nokkur leiðbeining að fundinum. Eg get ekki betur séð, ef féð er veitt athugasemdalaust, eins og nefndin ætlast til, en að þá sé þar með skapað ílt fordæmi. Og ef nú við þetta bætist, að þeir þingmenn, er fundinn sóttu og þágu fé fyrir, greiða atkvæði með fjárveitingunni, þá er komin siðspilling, »corruption«, inn í þingið. Því slæ eg hér með föstu. Því að hvað er »corruption«, ef það er ekki það, að þingmenn »wotera« sjálfum sér fé úr landssjóði. (Sigurður Sigurðsson: Það er ekki í fyrsta skifti). Það kann að vera, en það hefir aldrei verið látið óátalið, heldur jafnan vakið mikinn óhug um land alt. Eg segi ekki með þessu, að eg vilji láta fjárútlátin skella á hæstv. ráðherra. Það mætti bæta honum þetta upp með persónulegri fjárveitingu sem þessu nemur. Eflaust hefir hann gert þetta í beztu meiningu. En eg segi með okkar fræga sálmaskáldi: »Góð meining enga gerir stoð«.

Eg álít, að breytingartill. háttv. 1. þm. S.- Múl. (J. Ól.) bæti mikið úr. Aðalatriðið er að fjárveitingin skapi ekki ilt fordæmi, og við því slær till. varnagla. Eg mun því greiða henni atkvæði, ef hin br.till. fellur.