01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (461)

83. mál, síldarleifar

Magnús Kristjánsson:

Það getur auðvitað verið heppilegt í mörgum tilfellum að setja reglur, er tryggja heilbrigðisástandið bæði hvað snertir menn og skepnur, en eg held að þetta frumvarp sé með öllu þýðingarlaust. Þetta frumv. mun vera fram komið fyrir tilhlutun nokkurra varpeigenda, en þeir eru oft óþarflega viðkvæmir fyrir ýmsum miður áreiðanlegum sögum um banatilræði við þessar uppáhaldsskepnur þeirra, æðarfuglinn. Eg tel það alveg ósannað mál, hvort þessi brá á sjónum, sem svo mikið hefir verið talað um, vinnur æðarfuglinum nokkurt tjón. Eg hefi athugað þetta nokkuð, en ekki orðið var við að svo væri. Ef til vill getur það komið fyrir með einstöku unga, en eg hygg að það geri fullorðnum fugli ekki neinn skaða.

Hér stendur svo á, að þessi síldarbræðsla var áður fljótandi, nefnilega úti á skipi, en nú er hún flutt í land, svo að þetta kemur nú miklu síður fyrir. Eg get fengið vitnisburð margra manna um að svo sé, sem eg segi, að tjón það sem sagt er að fuglinn hljóti af þessu, er að mestu ekki annað en hugarburður, og virðist mér því, að á meðan þetta sé ósannað, hvort fuglinn hafi skaða af þessu, þá sé ekki rétt gert að leggja höft á þessar verksmiðjur eða þröngva kosti þeirra á nokkurn hátt. Nú hafa verið lagðar um 3 milíónir króna í þessar stofnanir og þær veita landinu talsverðar tekjur, sem munu fara vaxandi. Líka hafa þessar stofnanir gert það að verkum, að verð hefir hækkað til muna á þeirri síld, sem söltuð hefir verið, því að það er hvortveggja, að þær taka við allri skemdri og lélegri síld, svo ekki er saltað annað en góð vara, og annað hitt, að síðan þær tóku til starfa, hefir það ekki komið fyrir, að of mikið hafi borist að á markaðinn í einu af saltaðri síld, og það hefir auðvitað mikla þýðingu fyrir verðið. Eg tel það því mjög illa farið, ef þingið metur þessa umkvörtun nægilega til þess að gera eitthvað, sem sýnir að það vilji hefta þessa atvinnugrein.