01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (463)

83. mál, síldarleifar

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Þetta frumvarp er mjög viðsjárvert og ætti ekki að ganga fram í deildinni. Heilbrigðissamþyktir er hægt að gera alstaðar um heilsu manna, en hæpið mun, að þær geti náð til þess að vernda heilsu ceóarfugla. Eg held líka, að hræðslan um tjón, það sem æðarfuglinn hafi af lýsisbrækjunni, sé hégilja ein. Eg er fæddur á prestssetri, þar sem var mikið æðarvarp (150 pd.), og hefi séð fugla synda með unga þar sem fult var af lýsisbrækju (eins og oft vill verða, þá er lýsi er brætt niður við sjó), án þess þeim yrði meint við það. Eg hefi líka horft á háa síldarbunka á Akureyri og rann úr þeim lýsið fram í sjóinn, og setti brá á hann, og var ekki að sjá sem fuglar, er þar voru á sundi, fældust eða yrði neitt flökurt. Og eitt er víst, að enginn mintist á þessa hættu fyrri en verksmiðjurnar komust á fót. Þá er fyrst hætta á ferðum.

Eg er ofur-hræddur um, að hér geri vart við sig vor ljóti, en, því miður, algengi þjóðlöstur: öfundin. Á henni bólar í hverri kotungssál, ef einhver atvinna gefur einhverjum góðan arð. Það er eins og enginn geti vitað, að annar hafi meira að bita og brenna en hann sjálfur, þó að honum vegni vel. Og þessar kotungssálir finnast alt of víða meðal þjóðar vorrar — jafnvel á þingmannbekkjunum hér, eins og lýsir sér daglega, ef minst er á embættismenn, þótt á sveltilaunum lifi.

Það hlýðir ekki að Alþingi leggi höft á svo mikilsverðan atvinnuveg, þótt aldrei nema »almæli« sé á því, að vitni háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.), að lítils háttar spjöll verði á æðarvarpi. »Almæli« er teygilegt orð; það getur þýtt sama sem fárra manna mál, og það getur líka verið hjátrú ein, það Sem í almæli er. Alþingi má ekki hlaupa eftir slíku; Alþingi getur ekki tekið til greina annað en fulla sönnun. Það þyrfti að minsta kosti þingsvitni um málið. Eg skal ekkert fullyrða um nauðsyn þessa máls, en þær sannanir liggja ekki fyrir nú, að Alþingi geti tekið frumv. til greina.