01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í C-deild Alþingistíðinda. (474)

80. mál, gjafasjóður Jóns Sigurðssonar

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Hvað það snertir að ekki sé þörf á að setja málið í nefnd, þá get eg ekki fallist á það. Mér virðist full þörf á henni, þó að ekki væri nema vegna formsins, þar sem það orkar tvímælis, hvaða leið er heppilegast að fara til þess að fá gjafabréfinu breytt. Ummæli háttv. síðasta ræðumanns (M. Kr.) gera það og ekki ósennilegt, að tryggilegra sé að hafa nefnd. Hins vegar skil eg ekki að hv. þm. hafi ekki búist við því að þetta mál kæmi fyrir þingið, þar sem það lá fyrir til umræðu og sama tillagan samþykt á öllum þingmálafundum í sýslunni og sýslufundurinn, þar sem það var til meðferðar, var einmitt haldinn á Akureyri. Eg held þess vegna að því verði ekki dróttað að mér með réttu, að eg hafi farið á bak við þingmanninn með þetta mál. Það er líka nægur tími enn fyrir hann að koma fram breytingartillögur í þá átt, er hann gat um, og býst eg við að geta verið með þeim viðauka á frumvarpinu, þegar eg hefi kynt mér málið enn nánara. En það er einkennilegt, að á öllum þeim fundum — sýslufundi og þingmálafundum — þar sem þetta mál var rætt og athugað, kom aldrei neitt til tals um þetta atriði, sem hann vakti máls á, en með því er auðvitað ekkert um það sagt, hvort bæjarfélaginu ber ekki sami réttur og sýslunni. — Af þeim ástæðum, sem eg hefi greint, get eg ekki fallið frá nefndinni.