04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (482)

7. mál, fasteignaskattur

Framsögum. minni hl. (Kristinn Daníelsson):

Af því að eg telst framsögumaður í þessu máli, stend eg upp til þess að kveðja það nokkrum orðum áður en það fer út úr deildinni, hvort sem það verður felt eða samþykt. Eg skal gefa sama loforð og háttv. framsögum. meiri hlutans (Ól. Br.) um að fara ekki út í einstök atriði. Frumv. var rækilega rætt við 2. umr. og eg hefi ekkert nýtt fram að færa. Eg vil að eins undirstryka það sem eg sagði þá, að frumv. mun vera á móti vilja þjóðarinnar, og eg býst við að þing og stjórn fengi óþökk fyrir að leiða það í lög. Menn munu segja, að hér standi ástæður á móti ástæðum, og eg skal ekki lítilsvirða þær ástæður, sem háttv. framsögum. meiri hlutans (Ól. Br.) bar fram. Það kann að mega segja, að þjóðin vilji aldrei neinar nýjar álögur, en eg held þó, að eg hafi fært nægar sannanir fyrir því, að það sé ekki rétt. En það er heldur ekki rétt, að leggja nýja skatta á þá, sem þegar hvílir á þungur Skattur, eins og t. d. marga húseigendur. Hvað einstök atriði snertir, vil eg sérstaklega undirstryka þetta atriði, því að það hlýtur að vera óréttlátt að leggja skatta á veðskuldir. Og þetta atriði eitt hygg eg að nægja muni til þess að þingmönnum verði erfitt að gera kjósendum sínum skiljanlegt, hvers vegna þeim væru bundnar svo þungar byrðar.

Eg ætla að minnast stuttlega á breyt.till. á þgskj. 260. Það er auðskilið, hvernig á framkomu þessarar breyt. till. stendur. Flutningsmennirnir hafa viljað taka af tvímæli um það, að prestar, sem taka upp í laun sin tekjur af prestssetrum og eignum þeirra, skuli ekki greiða skatt af þeim eignum. Eg get látið mér vel líka, að þessi breyt.till. er komin fram, og aðalefni hennar, að vilja tryggja prestana fyrir óeðlilegri kvöð, en aldrei hefir mér dottið í hug að álita þetta aðalgallann á lögunum. Hygg eg líka, að kjósendur myndu álíta það hlálegt, að létta að eins af prestunum þessari byrði, sem farið er fram á í frumv. stjórnarinnar.

Annað líkar mér heldur ekki, og það er orðalagið á breyt.till.: Landssjóður telst eigandi allra prestakallaeigna og kirkjueigna, annara en bændakirkna. Með því er eins og verið sé að slá fastri þeirri Skoðun, að landssjóður eigi allar kirkjueignir. Menn eru alls ekki á einni skoðun um það mál enn þá og finst mér því ekki rétt að við hafa orðalag, sem gefi í skyn, að þessu sé nú slegið föstu. Þessi breyt.till. er líka að eins fram komin til þess að undanskilja prestana þessum skatti, en ekki til hins, að segja neitt um, hver eigi kirkjueignirnar. Kann eg því illa við að orða þetta svona. Mætti vel orða það þannig að eins, að prestakallaeignir og kirkjueignir væru undanskildar þessum skatti. Ef málið skyldi fara lengra, mætti líka laga þetta síðar.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) mintist á þá aðdróttun, að verið sé að reyna að fella þessi lög til miska við stjórnina. Eg teldi það í alla staði óeðlilegt og órétt að beita slíkri aðferð í jafnmikilsverðu máli og þessu.