05.07.1913
Neðri deild: 4. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (49)

13. mál, vörutollur

Björn Kristjánsson:

Út af ræðu háttv. þm. Ak. (M. gr.), ætla eg að segja nokkur orð. Það er ekki hægt að segja, að gjaldið af segldúknum sé óbærilega hátt 2–21/2%. Það þætti ekki hátt gjald erlendis. Annars er mér það ekkert kappsmál út af fyrir sig. En hitt er mér aftur á móti kappsmál, að lögin verði ekki skemd. Og þess vegna er eg á móti því, að segldúkurinn sé færður til. Hins vegar er ekkert á móti því að tilbúin segl hafi sérstakt gjald, því að bæði hafa þau sérstakt nafn á farmskrá, og eru gerð, ef til vill að meira leyti eftir þunga, úr öðrum efnum en vefnaði, svo sem köðlum, járnhringjum o. s. frv.

Háttv. þm. gat þess, að lögin mundu hafa verið samin í flýti. Það var ekki rétt að orði komist. Þau voru ekki samin í flýti. En það er venja, þegar einn hugsar lögin og aðrir taka til að breyta, sem minna þekkja til, að á þeim breytingum vill verða flýtisverk. Frv. var bezt úr garði gert 1909, verra 1911; því að þá var eg að reyna að breyta til samkomulags, en verst var það 1912, sem einnig stafaði af sömu ástæðum. Og var það því að kenna., að alþingi bygði ekki á flokkaskiftingunni fyrstu.

Viðvíkjandi því, hvað lögin eiga lengi að gilda, finst mér óþarfi að takmarka það við árslokin 1915. Ef þau reynast illa, má altaf nema þau úr gildi. En hver sú stjórn, sem fellir þessi lög úr gildi, er ekki hyggin stjórn.