04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (491)

7. mál, fasteignaskattur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Af því að eg var einn í nefnd, þeirri sem um frumvarp þetta fjallaði, og var þar í meiri hluta og studdi að því, að frumvörp, þau sem hér liggja fyrir, fengju fylgi nefndarinnar, finn eg ástæðu til að lýsa afstöðu minni til málsins og til nefndarinnar. Ástæður mínar til þess að styðja þessi frumvörp eru tvennskonar, og skal eg nú nefna þær.

Fyrst er það, að eg tel beina skatta, þegar þeir eru þolanlega sanngjarnlega á lagðir, réttlátari í sjálfu sér heldur en óbeina skatta, eða tolla svo nefnda. Beinu skattarnir eru nefnilega miðaðir við eign manna eða tekjur og standa því í beinu hlutfalli við gjaldþolið; en tollarnir eru aftur lagðir jafnháir á vörutegundirnar, hver sem þær kaupir, og koma því, að því er nauðsynjavöru snertir, eins háir á öreigann sem auðmanninn, og með því að öreiginn þarf nauðsynjanna með jafnt og efnamaðurinn, þá koma tollarnir langharðast niður á fátæklinginn. Tollarnir eru því ósanngjarnasti eða ranglátasti álöguvegur, sem til er; þeir eru, ef mér leyfist að komast svo að orði, ekki annað en löghelgaður vasaþjófnaður — lögleyfi fyrir landssjóð, til þess að stinga hendinni í hvers manns vasa, hálfgert í laumi, svo að maðurinn viti ekki af. Af þessari skoðun, sem eg hygg viðurkenda af öllum viðskiftafræðingum í heimi, þeim, er nokkurt nafn hafa, aðhyllist eg í principinu beina skatta. Játa skal eg það, að 1. þm. Rvk. hefir rétt fyrir sér í því, að skattar þessir komi nokkuð harðara niður á bæði landbændur og menn við sjávarsíðu en núgildandi skattalög. Auðvitað! Úr því að tilgangurinn er að auka tekjur landssjóðs fram yfir það sem beinir skattar gefa nú af sér, þá hlýtur að koma hærra gjald á gjaldþegna. Hitt var gildara í athugasemdum hans, er hann sýndi með rökum fram á, að hækkunin yrði mun meiri á kaupstaðarbúum og mönnum við sjávarsíðu, en á landbændum, og að þetta væri nokkurt misrétti. — En þurfi að auka tekjur landssjóðs, þá svara eg því, að tollarnir fela þó í sér enn meira misrétti fyrir sjávarmenn og kaupstaðarbúa, og því kýs eg heldur hækkun beinna skatta en tolla.

Út af því sem háttv. 1. þm. Rvk. sagði, kom sú athugasemd frá háttv. 1. þm. Skgf., að ranglega hefði verið farið með samanburðinn, af því ekki hefði verið tekið tillit til skipa; en þau væru eins konar fasteign.

Það er mér alveg ný kenning, að skip sé fasteign. — Ef háttv þm. kæmi inn í banka og ætlaði sér að fá veðdeildarlán út á skip Sem fasteign, er eg hræddur um að hann yrði að bíða töluvert lengi eftir láninu.

Ef þarf að auka tekjur landssjóðs, verð eg, eins og eg hefi gert í nefndinni, að hallast að frumvörpum þessum, og þá óbreyttum, eins og þau koma úr nefndinni.

Mig furðar á því, að tveir háttvirtir nefndarmenn úr meiri hluta nefndarinnar flytja nú breytingatillögu (þskj. 260) gagnstæða því. sem þeir greiddu atkvæði með í nefndinni og eg með þeim.

Það er alveg ný afstaða., sem þeir hafa tekið í þessu máli. Ef þessi breytingartillaga hefði komið fram í nefndinni, hefði eg gert ágreining. Það er fyrir mér eins og mörgum öðrum »principmál«, að þessar jarðir séu ekki undanþegnar gjaldi.

Eg get því ekki greitt atkvæði með breytingartillögunni og tæplega með frumvörpunum, verði hún samþykt.

Annars er eg frumvarpinu fylgjandi eins og það liggur fyrir frá nefndinni,

svo framarlega sem nauðsyn ber til að auka tekjur landssjóðs.

Þá er á það að líta, hvort slík nauðsyn sé ekki fyrir hendi.

Jeg tók það skýrt og oft fram í nefndinni, gagnvart minni hlutanum sérstaklega, að það sem knýði mig til að styðja frumvörp þessi, væri það, að eg í annari nefnd, bankanefndinni, væri með að flytja annað frumvarp, sem bakaði landssjóði 100 þús. kr. útgjöld næstu 20 árin, og vildi eg því með þessum frumvörpum bæta landssjóði upp gjald, það sem á móti frumv. um bankann, er það kom fram, og þegar Stimpilgjaldsfrumvarpið var til umræðu, var hæstv. ráðherra sjálfur viðstaddur og lagðist hann þá eigi síður fast á móti því; taldi hann þá hag landssjóða svo góðan, að það frumvarp væri óþarft — sagði hann, að landasjóður þarfnaðist ekki fjárins. Eg skora nú á hæstv. ráðherra að segja, hvort hann vilji heita að beitast fyrir því, að bankafrumvarpið komist í gegnum þingið. Vill hæstv. ráðherra og vill formaður stjórnarflokksins, sem hér er staddur í deildinni, sjá um, að frumvarpið komist í gegn um Ed? vona eg að báðir svari játandi, og mun eg þá greiða atkvæði með þessu frumvarpi. (Pétur Jónsson: Fæst ekki nema eitt atkvæði?) Hver ræður sínu atkvæði. Það liggur í augum uppi, að ef á að drepa bankafrumvarpið, þá er horfin ástæða mín til að styðja frumvörpin, því að mér virðist algerlega ástæðulaust að kasta nýjum sköttum á þjóðina, þar sem þeirra er þá engin þörf.

Vona eg að eg fái slíka yfirlýsingu, að eg geti með góðri samvizku stutt þetta mál með atkvæði mínu.