04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (521)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Bjarni Jónsson:

Eg vil ekki að bannlögunum sé breytt í nokkurum verulegum atriðum fyr en þau eru reynd. Fyrir 1915 tel eg enga reynslu komna á þau, og þangað til vil eg ekki að linað sé á þeim. En ekki tel eg það að lina á bannlögunum, þótt sendiræðismönnum sé heimilað áfengi til heimilisþarfa, enda geta þeir ekki velt vín og áfengi og engin hætta á að þeir geri það. Hitt tel eg ófært, að veita þeim mönnum undanþágu, sem hér vinna í þjónustu annara ríkja. Þeir geta orðið margir og þar er hætt við vanbrúkun. Sama er að segja um þá sem hér vinna í guðsþakkaskyni, eina og landmælingamennirnir dönsku. Það er ekki gott að vita, hversu vel mundi gefast undanþága fyrir þá. Alveg sama á við um þá sem hér koma til að ferðast um landið. Ef til kæmi, að útlend ríki sendu hingað sendiherra, þá yrði að sjálfsögðu sama að gilda um þá sem sendiræðismenn. Aðrar undanþágur vil eg engar veita.

Eg hefi komið fram með br.till. Við þetta frumv. á þgskj. 261. Sé eg, að sams konar tillaga er og komin fram á þgskj. 235. Mér var ekki kunnugt um, að önnur tillaga væri komin fram um þetta, þegar eg sendi mína tillögu til skrifstofunnar. Auðvitað þarf ekki að bera upp nema aðra þeirra, og fellur þá hin niður.