04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (527)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Án þess að eg vilji fara að stæla við háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) út af ótta hans við sendimennina, þá vil eg minna hann á setningu, sem gildir mjög við lögskýringu: »Inclusio unius exclusio alterius«. Einmitt það, að þessum mönnum er veitt undanþága, útilokar í sjálfu sér alla aðra frá undanþágu, enda er það beint tekið fram í frumv., jafnvel um alla þörf fram, að öðrum megi ekki veita undanþágu.

Háttv. þingm. vildi sjá bréf frönsku stjórnarinnar, og get eg sagt honum það, að eg hefi átt tal um þetta við hæstv. ráðherra, og hann hefir lofað mér að bréfin skuli vera hér til sýnis við 3. umræðu.

Það er annars undarlegt, að hv. þm. skuli berjast svona ákaft fyrir að málið verði sett í nefnd nú, þar sem hann barðist móti nefnd í aðflutningsbannslögin í Ed. á þinginu 1909. Hér er þó um ólíkt minna mál að ræða.