05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (535)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Framsögum. minni hl. (Matth. Ólafsson):

Eg ætla að benda flutningsmanni breyt till á þgskj. 264 á, að það er ólíku saman að jafna reglugerð Skagfirðinga um veiðiskap í Drangey og þessari samþykt, sem frumvarpið fer fram á. Reglugerð Skagfj. er um þeirra eigin mál, en þetta um mál allra landsmanna. Því firðirnir eru ekki að eins eign þeirra sem við þá búa, heldur allra landsmanna. Hér er ekki verið að banna að setja lög fyrir hvern einstakan landshluta. Hér er um alt landið að ræða. Þetta frumv. gæti gert borgurum landsins stórtjón.

Eftir því sem áður hefir verið samþykt um fiskiveiðar, virðast þessi lög alveg óhafandi. Þessi lög mundu sýna sig eina og þau lög, sem banna á einstöku stað sérstök veiðarfæri. Menn muna, hvernig Faxaflóaútgerðin tapaði á því, og slík og þvílík dæmi eru um land alt. Ef þetta frumvarp yrði samþykt. þá er það líka athugavert, að margir borgarar á Akureyri, sem við hringnótaveiðiskapinn hafa fengist, yrðu atvinnulausir. Og svo er eitt; er nú víst að betur fiskist, þó að hringnótaveiðarnar verði bannaðar? Eg hefi sárlitlar vonir um það. Setjum nú sem svo að betur fiskist eftir að hringnótaveiðarnar eru hættar, þá tel eg efasamt að meira fiskist en nú með hringnótaveiðinni. Mér fyndist því nær að setja inn fé, til þess að hjálpa mönnum til þess að geta kept við hringaótaveiðiskapinn. Menn verða að gæta að því, hverju slept er, og gæta að því, að engin reynsla er fengin fyrir því, að hringnótaveiðiskapurinn spilli fyrir öðrum veiðiaðferðum. Menn mega ekki eiga það á hættu að tapa fé, með því að hefta eina atvinnugrein og vita ekki, hvort það hjálpar nokkuð annari.