05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í C-deild Alþingistíðinda. (538)

50. mál, vegir

Framsögum. meiri hl. (Kristinn Daníelsson):

Eg skýrði frá því við 1. umr. þessa mála, hvernig þetta frumvarp er fram komið. Vil eg ekki endurtaka það alt núna, en vegna þess að sumir kunna að hafa gleymt því, sem eg sagði þá, vil eg drepa á einstök atriði frumvarpsins.

Nefndin, sem var sett í málið, hefir — að einum undanskildum — orðið sammála um það, að ráða deildinni til þess að samþykkja fyrri málsgr. frumvarpsins, nefnilega að taka veginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar í tölu flutningabrauta. Nefndin felst á að þetta sé einhver fjölfarnasti, líklega allra fjölfarnasti, vegkaflinn á öllu landinu og þar á meðal mjög mikil vagna umferð á honum. Eftir eðli vegalaganna ætti þessi, vegur því að teljast í tölu flutningabrauta, en ekki sýsluvega. Þar sem þá þessi vegur er svo fjölfarinn, verður að vera trygging fyrir því að hann sé sæmilega fær, því það er hann hvergi nærri ætið. Á vorin og haustin er hann oft lítt fær yfirferðar, þótt hann sé svona sæmilegur yfir sumartímann.

Nefndinni fanst nú ekki sanngjarnt að 2 lítil sýslufélög eigi að sjá fyrir þessum vegi, þar sem þau að langminstu leyti hafa vegarins not. Hér er hins vegar ekki um svo langan veg að ræða, að landssjóði sé með þessu hundin þung eða alvarleg byrði.

Aftur gat nefndin ekki fallist á síðari málsgrein frumvarpsins, að viðhald vegarins skuli hvíla á landssjóði að öllu leyti, því það er gagnstætt því, sem á sér stað um allar aðrar flutningabrautir. Viðhaldið og eftirlitið á þeim hvílir vanalega á héruðum, sem brautirnar liggja um. En þar sem þó þessi vegur mætir óvanalega miklu sliti og það að minstu leyti í þarfir sýslufélaganna, sem mest af viðhaldinu kemur niður á, þá þykir nefndinni sanngjarnt að landssjóðar kosti viðhaldið að 1/3 hluta, sem einnig er heimilað í lögunum um vegi.

Vil eg minnast stuttlega á álit minni hlutana eða þess 1 manns, sem ekki var hinum nefndarmönnunum sammála. Hann er á móti báðum greinum frumvarpsins af því:

Í 1. lagi »að vegarkafli þessi liggur í 3 lögsagnarumdæmum, sem nær eingöngu hafa not vegarins«.

Þetta er ekki rétt. Vegurinn liggur ekki í 3 heldur 4 lögsagnarumdæmum (á að vera sveitarfélögum) og af þeim hafa sýslufélögin hans að eins litil not og Kjósarsýsla sama sem engin not.

2. ástæða háttv. minni hlutans er sú, að verkfræðingur landsins áliti viðhald vegarins engu kostnaðarminna, þótt hann yrði púkkaður. Það er að vísu satt, að landsverkfræðingurinn gerði ekki mikið úr þeim mismun. En eg hefi líka haft tal af ýmsum öðrum mönnum, sem vit hafa á vegum, og þar á meðal manni þeim sem gert hefir Keflavíkurveginn, sem er mjög vanur maður og segir hann að mikill munur sé á því, hve viðhaldið sé ódýrara á góðum undirbygðum vegi, en botnlausum, sem þessi vegur er.

3. mótbára háttv. minni hluta mannsins (St. St.) var sú, að engin skýrsla væri fengin um það, hvað hvað aðgerðin á veginum mundi kosta.

Hér þarf enga álitsskýrslu um kostnaðinn. Það er vitanlegt, að ekki er um stóra fúlgu að ræða. Fyrst þegar féð er veitt til brautarinnar, kemur að því að semja álitsskýrslu um kostnaðinn.

4. mótbáran var sú, að þeir einir vegir væru teknir í tölu flutningabrauta, er liggja um landsveitir, en ekki þeir, sem liggja með sjó fram.

Hvað gerir það til, þó að fáar eða engar slíkar brautir séu til? Því flutningabrautir þarf, þar sem flutningur er mikill.

5. og síðasta mótbáran var sú, að vegurinn væri fullgóður til aksturs eins og hann er nú.

Um þessa mótbáru þarf eg ekki að tala, því hún hlýtur að vera sprottin af ókunnugleika. Eg hefi þegar áður lýst því, að vegurinn er oft illfær. Eg gæti sýnt og sannað honum og háttv. deild það, að Gullbringusýslu er alls ekki kleift að halda uppi veginum frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Það er svo fjarri öllum sanni að ætlast til þess, að Suðurnes geri það, og það ætti að vera nóg til þess, að sýslan væri einhvern veginn losuð við veginn. Þetta er svo nauðsynlegur vegur og rétt hjá höfuðstað landsins, og þeir vegir mega ekki vera svo illir, að þeir séu til ógagns og vansæmdar fyrir landið, en það er þessi vegur oft, t. d. þegar útlendingar eru hér á ferðinni, og þótt við gerum ekki vegi sérstaklega fyrir þá, þá er þó síður að tjalda því bezta sem til er þegar, og þar sem gesta er von. Okkur þarna suður frá, er að vísu ekki mikið kappsmál um þennan veg; okkur er meiri áhugi á öðrum vegum en þessum, vegum, sem við höfum út af fyrir okkur og þurfum að kosta. Og þótt við séum neyddir til þess að leggja eitthvað til hans, þá mun það jafnan verða svo stjúpmóðurlega úti látið, sem frekast er unt.