05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í C-deild Alþingistíðinda. (541)

50. mál, vegir

Framsögum. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Eins og nefndarálitið ber með sér, hefi eg ekki getað fylgst með samnefndarmönnum mínum, og skal eg vísa til þess viðvíkjandi helztu ástæðunum. Þær hafa að vísu fengið mótblástur hjá háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.), en ekki fanst mér honum takast að hrekja þær. Það kann að vera, að eg hafi ekki kynt mér nógu vel takmörk lögsagnarumdæmanna. Eg hélt sem sé, að þessi vegur lægi um 3 lögsagnarumdæmi, en nú heyri eg að hann liggur um 4, og það ætti þó fremur að styrkja mitt mál en veikja, og þó að mér sé í raun og veru ókunnugt um, hvað þessum 4 stjórnarvöldum kunni að vera kleift að leggja til, þá ætti slíkt þó fremur að vera tiltök, þar sem það fjórða bætist við til þess að bera viðhaldabyrðina. Eg játa það, að eg hefi ekki farið um veginn öldungis nýskeð, en eg fór um hann á síðastliðnu sumri, og þá var hann vel akfær, eða eg sá engar hindranir á honum fyrir vagnaumferð. (Bjarni Jónsson: Hann er of mjór). Nei! Eg sá marga vagna mætast þar og gekk mjög vel; en verulegt atriði í þessu máli er það, að hann samsvarar ekki þeirri hugmynd, sem liggur til grundvallar fyrir flutningabrautum. Og þess minnist eg, að verkfræðingur, sem kallaður var á nefndarfund, leit einnig svo á. Hér er um veg að ræða, sem liggur milli tveggja nálægra staða við sjó, og þess vegna þótti mér það nokkuð merkilegt hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að hér væri nokkuð svipað ástatt eða jafnvel alveg sama sama máli að gegna og um flutningabrautina frá Akureyri inn að Grund. Sá vegur liggur utan frá sjó og inn í landið og það er samkvæmt aðalprincipinu fyrir flutningabrautum.

Hvaða meining er í því, að landssjóður kosti mörgum þúsundum króna til lagningar flutningabrautar á sæmilega góðum vegi til þess eins, að losa þessi fjögur lögsagnarumdæmi við nokkurn hluta viðhaldsins? Og hvað vinna þau svo mikið við þetta.? Jú, þau fá 1/3 af viðhaldskostnaðinum lagðan á landssjóð. Og satt að segja þykir mér í nokkuð mikið ráðist, að gera þennan veg að flutningabraut að eina til þess að losna við þennan þriðjung viðhaldskostnaðarins. Eg ímynda mér jafnvel, að viðkomandi stjórnarvöld verði ekki neitt sérlega þakklát fyrir þessa breytingartillögu eða ávinninginn í framtíðinni.

Það er þetta tvent, sem ræður mínu atkvæði, að frumvarpið bakar landssjóði byrði, sem er að mínu áliti vart forsvaranleg, og svo er það líklegt til að draga fleiri slíka dilka á eftir sér. Það er þegar kominn fram sviplíkur dilkur frá háttv. þm. Dal. (B. J.). Annars skildist mér, að vagnaumferð mundi ekki verða sérlega mikil um þann veg, sem hann talaði um, þótt hann annars kunni að vera tíðfarinn af kaupafólki og námsfólki, sem eg þó efast mjög um.

Eg skal að endingu geta þess, að það kom fram í nefndinni, að um Hafnarfjarðarveginn væri mikil umferð af mjólkurvögnum, bæði af Álftanesi og víðar að. Þess vegna skilst mér, að það muni vera þessi lögsagnarumdæmi, sem nota hann mest, enda hlýtur svo að vera. Satt er það, að heilsuhælið á Vífilsstöðum mun nota hann mikið til flutninga, en tæpast mun eitt heimili nota hann svo, mjög, að hann verði mörgum árum fyrri ónýtur fyrir það eða viðhaldskostnaður gífurlegur. Eg mun því hvorki greiða atkvæði með frumvarpinu eður breytingartill. samnefndarmanna minna, og vænti ins sama af meiri hluta deildarmanna.