05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í C-deild Alþingistíðinda. (546)

50. mál, vegir

Framsögum. meiri hl. (Kristinn Daníelsson):

Háttv. þm. S.-Þing. (P.J.) andaði á móti frumvarpinu. Það er ekki nýtt fyrir vegina okkar hérna suður frá, að köldum gusti andi úr þeirri áttinni.

Aðalástæðan var sú, að þetta frumv. mundi opna fleiri vegum aðgang að landssjóði. En eg vil benda á, eins og eg hefi reyndar oft gert áður, að það stendur alveg sérstaklega á um veginn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur svo sérstaklega, að það þarf alls engan dilk að draga á eftir sér, þó að frumvarpið nái fram að ganga. Við annan enda vegarins er höfuðborg landsins og við hinn endann einhver stærsti kaupstaðurinn. Vegurinn verður auðvitað fyrir langmestu áliti af völdum þessara tveggja bæja, en auk þess er afarmikil umferð um hann af mönnum úr fjarlægum sveitum, bæði austanmönnum, sem sækja til sjávar, og öðrum. Vegurinn er allra gagn, en lang minst not af honum hafa sýslufélögin, sem viðhald hans eiga að kosta. Þetta verð eg að kalla að sérstaklega standi á.

Háttv. 1. þm. Skagf. (ÓI. Br.) hafði það á móti frumvarpinu, að varhugavert væri að breyta jafnvandlega undirbúnum lögum og vegalögin væru. Eg skal ekki hafa á móti því að þau hafi verið vandlega undirbúinn. En ekki fór þó meira fyrir undirbúningnum en svo, að ein sýslan, Gullbringusýsla, gleymdist alveg, sú sýslan sem langversta vegi hefir og kostnaðarsamasta.

Háttv. sami þm. (Ól. Br.) gat þess, að meira hefði verið lagt úr landssjóði til styrktar vegagerðum í Gullbringu- og Kjósarsýslu en til nokkurrar annarar sýslu á landinu. Þetta kemur ekki til nokkurra mála, og þarf eg ekki annað en að minna á flutningabrautirnar til þess að sýna að svo er ekki. Eg skal reyndar játa að sýslufélög þessi hafa fengið mikinn styrk úr landssjóði á móti, að engin sýsla á landinu hefir lagt jafnmikið af sínu fé á móti landssjóðstillaginu.

Háttv. 1. þm. Skagf. (ÓI. Br.) sagði ennfremur, að landsverkfræðingnum hefði ekki getist að frumvarpinu. Hann hafði ekkert á móti frumvarpinu í sjálfu sér, hann vildi einungis ekki gera mikið úr mismuninum á viðhaldskostnaðinum og er eg satt að segja ekki farinn að skilja það enn.

Að öðru leyti skal eg ekki fjölyrða um málið, mér er í raun og veru miklu annara um aðra vegi en um þennan veg. En eg vona að eg hafi gert öllum ljóst, að hér er ekki farið fram á annað en það sem full sanngirni mælir með.