05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í C-deild Alþingistíðinda. (547)

50. mál, vegir

Kristján Jónsson:

Því hefir verið haldið fram, að landsverkfræðingurinn væri mótfallinn þeim breytingum á vegalögunum, sem hér er farið fram á. Eg finn mér skylt, þar sem eg er einn nefndarmannanna, að skýra frá því sem eg veit sannast um þetta. Eg skildi landsverkfræðinginn alls ekki svo. Hann var kallaður á nefndarfund, sérstaklega til þess að bera það atriði undir hann, hvar takmörk vegarins væru. Hann lét það álit sitt í ljós, að vegurinn takmarkaðist af kaupstaðarlóðunum beggja megin. Eg gat ekki heyrt, að hann hefði nokkuð á móti því að þetta lagafrumvarp yrði samþykt. Eg segi ekki að hann hafi verið þess hvetjandi, en það þori eg að fullyrða, að hann lét ekki í ljós að frumvarpið kæmi á nokkurn hátt í bága við anda vegalaganna. Enda er sú mótbára algerlega gripin úr lausu lofti. Andi laganna hlýtur að vera sá, að flutningabrautir skuli vera þar, sem flutningaþörfin er mest, svo framarlega sem þar er hægt að leggja akbraut. Eg held að enginn geti neitað því, að hér sé meiri flutningaþörf en annarstaðar, þar sem stærsti bær landsins, Reykjavík, er annarsvegar og all-stór bær hins vegar, sem sé Hafnarfjörður. Það nær ekki nokkurri átt að bera þennan veg saman við brautina frá Akureyri og inn að Grund. Þar er ekki fluttur tíundi hluti, ekki hundraðasti hluti af því sem um þennan veg er flutt, og á þetta við jafnt um mannflutninga sem vöruflutninga. En ein mitt það, að flutningaþörfin er svo mikil, getur það að verkum, að vegurinn er brúkaður meira og slitnar meira en vegir yfirleitt, einkum vegna þess að alt er þar flutt á vögnum. Vegurinn slitnar því svo fljótt, að sýslan hefir ekki efni á að halda honum við. Þarna er nauðsynin á þessu. Jafnvel þó að allur viðhaldakostnaður lenti á landssjóði, væri það ekkert athugavert, og því síður er ástæða til að hafa á móti frumvarpinu, eftir að flutningsmaður hefir fallist á að breyta því í þá mynd sem það hefir nú. Það hefir í reyndinni sýnt sig, að sýslan er ekki fær um að halda veginum við, því að síðustu árin hefir hann ekki getað heitið vagnfær. Það kemur fyrir í hverri viku, að vagnar, sem fara um hann, skemmast eða brotna. Það hefir verið sagt hér, að réttlátt væri að kaupstaðirnir, Reykjavik og Hafnarfjörður, kostuðu veginn. Þeir munu nú hafa nóg á sinni könnu. Engin héröð þurfa að leggja annað eins til vegagerða og kaupstaðirnir, og þá sérstaklega Reykjavík. Á það er því ekki bætandi, enda ekki réttlátt að leggja kostnaðinn við þenna mjög fjölfarna vegarspotta á þá, því að hann liggur utan þeirra umdæmis.

Eg hefi fundið mér skylt, þar sem eg var einn í nefndinni, að segja nokkur orð málinu til stuðnings. Eg býst reyndar ekki við, að það hafi mikla þýðingu.