05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (569)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Sigurður Sigurðsson:

Þó að svo kunni að vera, að þetta frumv. sé ekki flutt hér fram að ástæðulausu eða alveg út í bláinn, þá verð eg þó að álíta það mjög svo varhugavert. Að vísu tók háttv. flutningsm. (B. Kr.) það fram, að slíkrar skoðunar þyrfti siður í sveitum en í kaupstöðum, og í sveitum nægði yfirlýsing hreppstjóra. Mér þótti vænt um að heyra þessi orð háttv. frams.m., því að ella dylst mér það ekki, að með þessu frv. væri lagður þungur skattur á þá ina mörgu, sem jarðir eiga að veði. En úr því að háttv. flutningsm. er þeirrar skoðunar, hví lætur hann þá ekki skoðun sína í þessu efni koma skýrt fram í frumv.? Eg álít frumvarpið, eins og það nú er, varhugavert. Það getur gefið bankastjórninni undir fótinn með að senda mönnum skoðunarmenn á hálsinn, ef til vill um langan veg, og getur það orðið dýrt spaug fyrir lántakendur. Að öðru leyti tók háttv. flutningsm. (B. Kr.) það fram, sem eg hygg líka vera rétt, að helzt þurfi þessa eftirlits við í kaupstöðunum og verzlunarstöðum, og þá einkanlega að því er timburhúsin snertir, sem fljótt ganga úr sér vegna óvandaðs frágangs, sem á þeim er, bæði hér í Reykjavík og víða annarstaðar. En þótt nauðsyn sé að hafa slíkt eftirlit, þá þarf það að vera sem vægast og kostnaðarminst fyrir lántakendur. Og þar sem bankinn er svo vel mentur, virðist hann sjálfur geta haft þetta eftirlit, að minsta kosti hér í Rvík, og útbú hans þá í þeim kaupstöðum sem þau eru. En þar sem nú einmitt í reglugerð bankans er gert ráð fyrir því, að bankastjórnin geti snúið sér til sýslunefndar og bæjarfógeta, og heimtað af þeim eftirlitsgerðir viðvíkjandi fasteignarveðum bankans, þá ætti það að nægja, og er þá frumvarpið jafnvel algerlega óþarft. Sýslunefndarmenn þurfa ekki að gera sér mikið ómak til þess að fá upplýsingar um ásigkomulag inna veðsettu jarða, hver í sínum hreppi, og þeir vita um það, hvort einstakar jarðir hafi rýrnað, svo nokkru nemi. Eins og háttv. flutningsm. tók fram, fara jarðirnar batnandi, og eg geri ráð fyrir því, að þær batni enn meira í framtíðinni; það eru undantekningar, ef þær batna ekki. Verði jarðirnar fyrir ófyrirsjáanlegum óhöppum, svo sem skriðum eða öðrum slíkum áföllum, er innanhandar fyrir bankastjórnina að fá upplýsingar um slíkt. Það er tíðast, að jarðir eru ekki metnar neitt gífurlega hátt til veðdeildar, og eftir minni reynslu er bankastjórnin ekki sérlega greið að lána hátt út á jarðir. Aftur hafa þær sögur gengið, að stjórn bankans bæði fyrr og nú hafi verið miklu greiðari og ríflegri í lánum til húsa í kaupstöðum, og þó sérstaklega hér í Reykjavík. — Af þessum ástæðum og fleirum, verð eg að telja frumvarpið varhugavert, og nauðsynlegt, að það sé athugað í nefnd.