05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (570)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Einar Jónsson:

Eg stend upp til þess að lýsa yfir því, að það gæti verið ein ástæða til þess fyrir mig að óska, að þetta frumv. næði fram að ganga, þótt eg annara sé andvígur því, sú sem sé, að ef það gengur fram og hin tvö frumv. um bankann, sem hér hafa verið fyrir deildinni, þá treysti eg mér til að vera skuldugur svo um muni. Mér sýnist þá sem bankastjórnin sé orðin alveg ábyrgðarlaus og geti óhrædd veitt lán bæði úr bankanum og veðdeildinni, jafnvel þó veð væru ónýt eða engin, þar sem landssjóður á að skaffa peninga svo hundruð þús. kr. skiftir, og ábyrgjast svo öll innlánsskírteini, sparisjóðsinnlög o. s. frv.

Það er talað um það, að hér sé að eins um skoðun að ræða, en enga virðing á fasteignaveðum. Eg fæ ekki betur séð, en að hér sé um beina virðing að ræða, því að eg skil ekki, að nokkur slík skoðun fari fram, sem ekki er virðing um leið; annars er alt þetta gersamlega þýðingarlaust. Þetta hlýtur að baka lántakanda mikinn kostnað fram yfir vexti og afföll veðdeildarbréfa, sem tíðast eru æði mikil. Það verður ekki séð á frumv., hvort ætlast er til að þessi skoðun eða virðingargerð fari fram strax og frumvarpið nær staðfestingu, eða ekki fyr en 5 árum síðar. Þó hygg eg, að sú sé tilætlunin að frestað verði framkvæmdum á þessu fyrstu 5 árin. En þá ber þess að gæta, að eftir þann tíma er búið að borga talsvert af lánunum, og þótt einhver gluggi hafi fúnað lítið eitt, eða einhver málningarblettur máðst, eins og háttv. bankastjóri komst að orði og hafði fyrir aðalástæðu í sinni framsögu, þá hygg eg að verðið lækki lítið við það — að minsta kosti ætti tryggingin fyrir veðskuldinni, sem þá er orðin minni — því afborganir í 5 ár, og því meiri í fleiri sinnum 5 ár, minka lánið ekki svo lítið, — á þó að vera góð, þó veðið rýrni lítið eitt.

Eg er líka viss um, að bankastjórnin fer eftir þeim reglum, sem henni eru settar, og gæti þess að virða sanngjarnlega, og þá einkum að virða ekki of hátt né lána of hátt. Og þá veit eg að veðið verður gott eftir 5 ár, þótt eitthvað lítið hafi rýrnað. Eg veit að þessi bankastjórn, sem nú er, er athugul og aðgætin. Vona eg að svo verði áfram, og þá sé eg ekki að mikil hætta sé á ferðum þótt þetta ákvæði verði ekki tekið upp með lögum.

Háttv. flutningsm. (B. gr.) gaf það í skyn, að eins og nú stæði á gæti bankinn ekki heimtað, að skoðunargerð færi fram nema á eigin koatnað. Þetta finst mér mjög sanngjarnt ákvæði, því að það er bankinn, sem lánar út fé sitt, og haldi hann að það sé í einhverri hættu, þá er það auðvitað hans að aðgæta það og þá líka á eigin kostnað. Þar sem líka sýslunefndir og hreppstjórar geta haft með þetta að gera, þá finst mér vera hægt að láta sér það nægja.

Af öllum þessum ástæðum er eg frumvarpi þessu mótfallinn. Eg tala hér ekki fyrir sjálfan mig, því að eg á enga veðskuld í bankanum, heldur fyrir almenning, sem gæti orðið hart úti, ef þetta frumv. fær fram að ganga, t d. jarðeigendur í sveitum og aðrir fasteignamenn, sem af einhverjum ástæðum kæmust í ónáð við verandi bankastjórn og hefðu eignir sínar veðsettar, gætu átt það á hættu, að heimtuð yrði virðing á eignum þeirra að ástæðulausu, og rökstyð eg það ekki frekar.

Annars tel eg það vísara, að bankinn gæti sent sjálfur einhvern af sínum mönnum til þess að framkvæma þessa skoðun. Eg á nefnilega eftir að skilja það, hvers vegna starfsmönnum bankans hefir fjölgað svo mjög á síðari árum. Mér er ekki kunnugt um, að störfin hafi aukist svo, sérstaklega þar sem mjög lítið mun vera lánað út, að minsta kosti er mikið kvartað yfir peningaleysi og fátækt bankans in síðustu árin. Hvað eru mennirnir að gera? Eru þeir alt af að grúska í gömlum skjölum og skræðum, eða athuga gamlar tölur, sem fyrverandi bankastjórn útbjó? Eða eru þeir að leita að ráðum til þess að bæta hag bankans ? Það hélt eg þó að væri þingsins verk. Eg segi ekki að verandi starfsmenn bankans séu iðjulausir. Eg hefi aldrei séð þá óvinnandi. En eg vil fá að vita, hvað þeir eru að gera. Það er ekki til þess að vekja neina æsingu, að eg vil geta þess, að fyrir hafa komið þau tilfelli, að starfsmenn bankans hafa vanrækt störf sín. Það var t.d., er mér kunnugt um, stór sala á fasteign fyrir nokkurn vestur í Ólafsvík, sem veðsett var bankanum, sett þar á uppboð og seld fyrir lítið verð, meðfram eða jafnvel eingöngu vegna þess, að bankinn hafði þar engan mættan fyrir sína hönd. Þar stóð bankinn því ekki á verði eins og honum bar. Sömuleiðis varð talsverður halli fyrir bankann ó, verzlun hér í bænum, sem hét Bakkabúð, sem hjá hefði mátt komast, ef starfsmenn bankana hefðu verið notaðir. Eg segi þetta ekki til að reisa neinar erjur, heldur af því að eg fer hér með rétt mál.

Eg hlýt, eins og eg hefi sagt, að vera á móti þessu frumvarpi af þeim ástæðum, sem eg hefi greint. Sumum kunna að þykja þær veigalitlar, en eg kippi mér ekki upp við það. Eg er svo vanur að heyra slíkt, og mun hvorki blikna né blána fyrir því.