05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (573)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir þegar verið svarað að mestu leyti. Hann tók fremur kuldalega í þetta frv., eins og oftar, þegar um hag Landsbankans er að ræða eða veðdeild lána hans. Sagði, að frumv. væri varhugavert, og þótti það óljóst. En það er ómögulegt að orða þetta á annan hátt, ef meiningin er að leggja þessa skyldu á lántakendur. Að gera undantekningar og setja sérreglur með eignir í fjarlægum héruðum er, tæplega mögulegt, vegna þess að tilfellin eru svo mörg og ólík, og verður þá að vera undir dómi bankastjórnarinnar komið í hvert skifti, hvernig hún vill haga eftirlitinu. En eg skýrði frá því, hvernig við hefðum hugsað okkur að koma þessu fyrir, svo að það stæði í þingtíðindunum sem skýring á lögunum.

Hann gaf í skyn tortryggni gagnvart bankástjórninni. Hélt að hún færi að senda mann langar leiðir upp í sveit á kostnað lántakenda, ef þetta frumv. yrði samþykt. Bankastjórnin á ekki þessa tortrygni skilið, allra sízt þegar eg hefi lýst yfir því hvernig hún hefir hugsað sér að koma þessu eftirliti í framkvæmd.

Hann sagði og ásamt háttv. 1. þingm. Rangv. (E. P.), að bankinn hefði svo mörgum mönnum á að skipa, að honum væri ekki vorkunn á að vinna þetta verk. En bankanum ber engin skylda til þessa. Veit háttv. þingm, ekki, að bankinn og veðdeildin eru sitt hvað. veðdeildin hefir alveg sérstaka löggjöf út af fyrir sig, sérstaka reikningsfærslu og sérstakan sjóð. Bankanum kemur hún ekkert við að þessu leyti. Þingmaðurinn ætti að setja sig betur inn í málið, áður en hann fer að halda langa ræðu um slík efni — að minsta kosti svo, að hann þekki muninn á bankanum og veðdeildinni. En það er ekki tími til þess fyrir mig að vera hér að setja hann inn í bankamál, þótt honum mundi ekki af veita.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.) gaf í skyn um aukinn kostnað við bankann, þá óefi eg svarað þeim ásökunum fyrir nokkrum dögum — gefið glögga skýrslu um málið. Hafi hann ekki hlýtt á hana, er hægur vandi fyrir hann að lesa hana frammi á lestrarsalnum.

Ásökun háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) til bankastjórnarinnar um það, að hún lánaði hærra út á húseignir en jarðir, er svo vaxin, að manni liggur við að segja að hún sé sögð á móti betri vitund. Að minsta kosti er ókunnugleikinn þá afskaplegur. Allir vita það, að bankinn lánar 1/2 út á jarðir, en ekki nema 1/6 út á hús í Reykjavík, 1/3 út á hús í stærri kaupstöðum utan Reykjavíkur og 1/4 út á hús í minni kauptúnum. Um þetta gat háttv. þingmaður hæglega fengið upplýsingar bjá mér og öðrum áður en hann hélt ræðu sína, ef honum hefði verið ant um að vita ið rétta í þessu atriði. En hann virðist ekki gera sér mikið far um að vita nokkuð um það mál, sem hann er að tala um.

Ekki er það heldur rétt, að jarðirnar séu virtar tiltölulega. lægra en húsin. Virðingarmenn meta eftirgjaldið jafnvel oft hálfu meira en skattanefndirnar, svo að þar er sannarlega ekki dregið úr virðingarupphæðinni.

Viðvíkjandi því sem hv. þm. Vestm. (J. M.) sagði, þá eru það einu mótbárurnar, sem nokkuð gildi gætu haft á móti frumvarpinu. Það má vel vera, að það sé nokkuð hart að gengið að heimta þetta gjald af mönnum, sem ekki eru skyldaðir til þess samkvæmt inum upprunalega samningi við bankann. En þess ber að gæta, að þessi skoðun er einmitt í lántakendanna hag, vegna þess að svo er ákveðið, að rýrni veðið eða gangi úr sér, skuli það vera uppsagnarorsök. Fréttist nokkuð slíkt, yrði manninum þá auðvitað sagt upp. Það er því í hans þágu að skoðunin fari fram. Það getur verið stórhagur fyrir trassafengna menn, sem lofa öllu að ganga úr sér, að vita það, að þetta eftirlit fer fram. Þeir gæta þá betur eigna sinna en áður, þegar þeir vita, að þeir eiga á hættu, að láninu verði sagt upp, ef eigninni er ekki viðhaldið. Þegar þessa er gætt, þá held eg að sú réttarspilling, sem einstaka maður verður fyrir, vegi ekki þungt á metunum. Einkum þegar þess er gætt, að hér er ekki um hærri upphæð að ræða en 2–3 kr. fimta hvert ár. Lántakandi hefir líka heimild til þess að útvega sér vottorðið sjálfur um viðhald eignarinnar og getur hann þá sjálfur samið við virðingamennina um kostnaðinn.

Eg held því að ástæðulaust sé að vera að tala um, að hér sé harðýðgi beitt. Annars skal eg geta þess, að eg hefi ekkert á móti því, að þetta verði athugað í nefnd, hvort heldur einstakri eða því sé vísað til bankanefndarinnar.