05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í C-deild Alþingistíðinda. (577)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Einar Jónsson:

Eg bið um orðið til þess að tala nokkur orð við vin minn háttvirta 1. þm. S.-Múl. Hann bar mér það á brýn, sem honum er svo gjarnt bæði við mig og aðra, að eg hefði ekki eina mikið vit á málinu eins og hann.

Satt að segja þekki eg ekki nafnið á þessum ketti í stjörnufræðinni, sem hann var að tala um. En eg býst þó við, að hann sé skapaður með því æði, að hann sé vís til ýmsra stórvirkja. Eg gæti t. d. ímyndað mér, að hann gæti samið orðabók, — ef hann fengi góða borgun fyrir, og ótakmarkaðan tíma — sem ekki fengi meiri skammir heldur en þær orðabækur, sem ýmsir aðrir hafa verið að gefa út, eða máske verið gæzlustjóri í banka og á þann hátt orðið bankafróðari en eg, en samt sem áður staðið þar í fult eina mikilli tiltrú, sem ýmsir starfandi menn í þeirri stöðu, t. d. viðvíkjandi því sem háttvirtur þingmaður var að tala um, að sálin í mér hefði verið út á þekju, þá skal eg geta þess, að eg hygg að hann hafi farið manna vilt og meint sjálfan sig í gær, þegar hann einhvernveginn hafði ekki kjark til þess að greiða því máli atkvæði, sem hann í nefndaráliti hafði lagt til samþykkja.

Þá skal eg minnast örfáum orðum á ræðu háttv. 1. þm. Gullbr.- og Kj.sýslu, sem alls ekki var harðorð, þótt eg hefði til saka unnið. Hann sagði að veðdeildin hefði ekkert saman við bankann að sælda. Eg veit þó ekki betur en það séu sömu mennirnir og sama stjórnin þar og í bankanum.

Þar sem hann áleit, að eg þyrfti ekki að vera tala um aukinn kostnað bankana, þá mintist eg ekki á það að öðru leyti en því að eg sagði, að það væru fleiri starfsmenn við bankann nú orðið heldur en áður hefði verið og spurði, hvað þeir hefðu verið að gera, en tók það þó um leið fram, að eg hefði aldrei séð þá iðjulausa. En þegar hann álítur að starfsmennirnir hafi feikinóg að gera, þá hafa störf bankans líklega aukist að miklum mun, og eg skal ekki krefjast þess beint nú, að hann skýri fyrir mér í hverju þau störf eru fólgin, en mun ef til vill gera það síðar.

Að síðustu vil eg svo biðja hæstvirta forseta afsökunar, hafi eg farið út fyrir umræðuefnið.