05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í C-deild Alþingistíðinda. (587)

58. mál, hvalveiðamenn

Framsögum. (Guðm. Eggerz):

Eg stend upp í tilefni af því, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) þóttist ekki vera viss um, nema hvalveiðamennirnir gætu komið fram með skaðabótakröfu á, hendur landinu, ef þeir væru reknir burtu. Eg man eftir því, sællar minningar, þegar aðflutningsbannslögin voru innleidd. þá datt engum til hugar, að þeir kaupmenn, sem atvinnu höfðu af vínsölu, ættu neina skaðabótakröfu, þó þeir væru sviftir atvinnu sinni. Þeir hafa þó vitanlega stór hús, sem þeir hafa ekki hálf not af eftir það að þeir verða að hætta að reka þessa atvinnu. Þá datt engum í hug að minnast á skaðabætur, þegar um Íslendinga var að ræða, en nú, þegar það eru útlendingar, sem hlut eiga að máli, þá er risið upp og sagt, að það sé verið að reka þá burt af landinu. Eg man ekki eftir að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mintist á þetta fyr en við vorum búnir að koma okkur saman um nefndarálitið. Mér þykir það undarlegt, að hann skyldi ekki koma með þetta, fyrri, en hann hefir líklega náð í einhvern lögfræðing, sem hefir gefið honum þessar upplýsingar. Það væri gott, ef einhver annar lögfræðingur vildi reyna að sannfæra þm. um ið gagnstæða, að hér væri engin hætta á ferðum.