05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (592)

58. mál, hvalveiðamenn

Matthías Ólafsson:

Mér þykir leitt, að háttv. framsögum. (G. E.) hefir ekki fengið neinn af lögfræðingum deildarinnar til þess að tala sínu máli um skaðabótakröfurnar. Í nefndinni er eg búinn að heyra álit hans á málinu og hefir mig ekki langað til að heyra það aftur, heldur annara lögfræðinga hér í deildinni. Og svo held eg líka að hv. framsögumaður sé þannig skapi farinn, að hann haldi alt alveg óyggjandi rétt, sem hann segir sjálfur. (Forseti: Eg vil mínna háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) á, að hann er nú búinn að tala tvisvar sinnum í þessu máli. Og eftir þingsköpunum má hann í þriðja sinn að eins gera stutta athugasemd). Já, eg skal ekki tala lengi. Mér gleymdist að geta þess, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) hélt fram, að það væri ekki rétt hjá mér, að ið sama gilti um skaðabótakröfur hvalveiðamanna og vínsölumanna. Hvorir tveggja hafa þó dýrar byggingar, sem verða að engum eða litlum notum ef þeir eru nauðugir reknir burtu frá atvinnu sinni. Hvalveiðamennirnir hafa auk þess mörg og dýr verkfæri, sem koma þeim að litlu haldi, þegar þeim er bannað að brúka þau. Svo vil eg geta þess, að því var áðan hvíslað að mér hér í deildinni, að ekki væri loku fyrir það skotið, að vínsölumenn færu í skaðabótamál við landssjóð. Því hefir verið fleygt, að slíkt mál væri á leiðinni.