05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í C-deild Alþingistíðinda. (595)

58. mál, hvalveiðamenn

Bjarni Jónsson:

Áður en við förum úr þessum hvalastað vil eg mega segja nokkur orð.

Ósannað tel eg það alveg, að hvalamissir hafi áhrif á. fiskveiðar, sem haldið hefir verið fram hér. Eina ástæðan, sem háttv. framsögum. (G. E.) hélt fram fyrir því að nauðsyn bæri til að friða hvali, var sú, að hvalurinn væri svo nytsamt dýr, sem óðum færi þverrandi hér við land. Þó hann nú fari þverrandi, þá þori eg ekki að segja að hann geri það svo mjög, að ástæða sé til þess að friða hann með lögum. Og þó hann sé friðaður í landhelgi, má eins veiða hann fyrir utan landhelgina. Finst mér háttv. framsögumaður í þessu hvalamáli vaða á bæxlunum sem búrhveli.

Því hefir verið haldið fram hér í deildinni, að hvalir færu svo óðum þverrandi að hvalveiðamennirnir hefðu nú in síðustu árin tapað stórfé á útgerðinni og mundu þeir því sennilega hætta henni. Þá friðast hvalurinn af sjálfu sér, og sé eg því ekki næga ástæðu til að gefa út þessi lög.

Sú ástæða háttv. framsögumanns (G. E.) að Íslendingar gætu svo síðarmeir tekið hvalveiðarnar að sér, minnir mig á sögu úr Hafnarfirði. Þar var einu sinni settur lás fyrir upsa með nótum. En þegar til kom, var fiskurinn svo smár, að þeir sleptu honum og hugsuðu sér að taka hann aftur þegar hann væri orðinn stærri.