05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í C-deild Alþingistíðinda. (597)

58. mál, hvalveiðamenn

Framsögum. (Guðm. Eggerz):

Það var enginn lítill hvalablástur í hv. þm. Dal. (B. J.). Annars furðaði mig á undirtektum hans í þessu máli, hana, sem altaf er með þetta: »Ísland fyrir Íslendinga«. Furðar mig á því að hann skuli leggja á móti þessu frumv., því hér er einmitt um það að ræða, að Ísland verði fyrir Íslendinga. Enginn hefir neitað því að Norðmenn hafi grætt stórfé á hvalveiðum hér við land. En því mega þá ekki Íslendingar gera það ?

Út af orðum hæstv. ráðh. um skaðabæturnar, vil eg spyrja hann: á hverju á að byggja þessar skaðabótakröfur? Hvalaveiðamennirnir segja sjáifir, að þeir hafi tapað á útgerðinni síðustu árin. Hvalveiðamönnunum var kunnugt um, að þetta frv. kæmi fram hér á þinginu í sumar. Eg sagði þeim frá því nú í vor. og enginn þeirra mintist þá á neinar skaðabætur. Þeim virtist standa það alveg á sama þó þetta frv. gengi fram. Þeir ætluðu að hætta útgerðinni hvort eð var, allir, nema einn — til þess að elta uppi síðustu hvalina.

Hvað því viðvíkur að Norðmenn hafi goldið hvalveiðamönnum skaðabætur þegar þeir bönnuðu veiðarnar þar í landi árið 1904, þá hefi eg hvergi fundið að svo hafi verið.

Hinsvegar sé eg það á umræðum, sem fram fóru í norska stórþinginu 1904 um þetta mál, að hvalveiðamanni var þá neitað um skaðabótakröfu að upphæð kr. 419,800, svo að eg er með öllu óhræddur um það, að hvalveiðamennirnir eiga enga skaðabótakröfu gegn landssjóði, þótt frv. verði að lögum.

Þetta hefi eg margtekið fram. Eg vil benda hæstv. ráðherra á, hvernig það gæti hugsast að hvalveiðamennirnir fyrir austan segðu sem svo: eg krefst 100.000 kr. af landssjóði í skaðabætur, vegna þess að eg verð að hætta við atvinnurekstur minn, sem síðustu 5 árin hefir bakað mér 40.000 kr. árlegt tjón.