06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í C-deild Alþingistíðinda. (603)

13. mál, vörutollur

Björn Kristjánsson:

Eg held að l. liður í breytingartillögunni á þingskjali 281 sé ekki til bóta. Eg hugsa að ekkert þurfi að taka fram um þessar olíutegundir. Það er meiri og minni olía í öllum vélaáburði. En táknunin »vélaáburður« sést aldrei á farmskrá, þess vegna á tollheimtumaður ómögulegt með að innheimta gjald af »vélaáburði«, sem ekki er nefndur í farmskrá.

Þá líkar mér og illa, að ennþá skuli standa í frumvarpinu orðið »netjatvinni«, sem enginn getur vitað um og aldrei er nefndur sérstaklega á farmskrá því nafni. Það er þetta, sem aldrei er aðgætt sem skyldi, að nefna hlutina í lögunum, eins og þeir eru nefndir í farmskránni. Þetta frumvarp þarf enn lagfæringar við, og eg vona að háttv. efri deild sjái um að það fái hana.