06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (608)

57. mál, girðingar

Bjarni Jónsson:

Eg má til með að gera örstutta grein fyrir breytingartillögum þeim sem eg hefi borið fram. Nöfnin á lengdarmálinu vil eg nú sem áður hafa á íslenzka tungu en ekki á útlenda. Vona eg að allir skilji, að öllum landsmönnum er auðveldara að læra þessi heiti, sem íslenzk eru, heldur en útlendu orðskrípin. Orðið stika er, ef eg man rétt, löglegt heiti á lengdareiningunni »meter« eftir stjórnarráðstöfun. Auk þess er það gamalt íslenzkt lengdarmál, frá því um 1200, og var þá á lengd við »meter«, skakkaði ekki nema 1 eða 2 þuml. En það er svo lítill munur, og svo langt síðan að það lengdarmál var í gildi, að ekkert getur verið á móti því nú, að taka það upp sem lögheiti á þessari lengd. Hitt vita menn, að til þess að fá undirskiftingarnar, sem útlendingar tákna með latneskum amböguheitum, hefi eg og aðrir góðir menn hugsað upp orðin tugstika, hundstika og þúsundstika: (Hlátur). Það er góðs viti að menn hlægja þegar þeir heyra orð eins og hundstika. Það er auðséð, að þeim dettur ekkert í hug, annað en hundur, eins og þeir haldi að »hund« í hundrað og hundur sé sami stofninn. Það er góðs viti, að menn hlægja að þessu segi eg, því að þau nýyrði fá fyrst festu í málinu, sem verða fyrir mestri mótspyrnu af heimsku manna. Eg ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu að sinni. Eg býst við, að síðar gefist mér kostur á, að klappa steininn betur. Menn skulu aldrei hrósa sigri yfir því, að önnur eins orðskrípi og útlendu heitin á stikukerfinu nái festu í málinu. Veit eg það, að tillaga mín er borin upp til þess að falla. en þeir sem greiða atkvæði á móti henni, baka með því sjálfum sér og stefnu sinni dóm og áfelli.

Þá kem eg að hinum breytinga.rtill. mínum, sem eru efnisbreytingar. Í lögunum á þessi klausa að standa: Vilji maður girða beint, og þarf til þess inn á annars manns land, þá er það því að eins heimilt, að til komi samþykki jarðeiganda og ábúanda þeirrar jarðar. En synji þeir um samþykki, skal kveðja til úttektarmenn og skulu þeir ákveða girðingunni staða o.s.frv. Mér er, með öðrum orðum, heimilt að neyða þann mann, sem land á á móti mér, til að þola, að eg girði beint yfir alla króka og tungur af hana landi, sem liggja inn í mitt land. Hér þykir mér gengið of nærri eignarréttinum. Reyndar er séð fyrir því, að sá er verður fyrir halla af þessu, eigi heimtingu á skaðabótum. En það þarf alls engin hagnaðarástæða að vera. Mér getur af einhverju ástæðum þótt svo vænt um skika af landi mínu, að eg vilji alls ekki láta hann af hendi. Og þær ástæður eru mikilsverðar, því að þar getur ekkert fé komið í móti. Háttv. sessunautur minn (J. ÓL) segir, að á þessum skika geti verið grafreitur og er það vel hugsanlegt. (Sigurður Sigurðsson: Einhversstaðar úti á engjum). Það getur vel hugsast, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) vildi grafa á slíkum stað, margt það sem honum er kærast, t.d. næstu girðingalög sín! (Sigurður Sigurðsson: Velbekomme). Eg þakka háttv. þm. (S. S.) fyrir að kenna mér dönsku hér, þó að eg sé reyndar ekki svo mjög áfram um, að læra það mál. Eg hef því leyft mér að leggja til að ákvæðið um, að úttektarmennirnir megi setja girðingunni stað, falli burt. Þetta er mergurinn málsins í 2. breyt.till: minni. Þó að eg leggi ekki mikið upp úr eignaréttinum yfir höfuð, þá finst mér sjálfsagt að allir njóti hans, meðan hann er í lögum.

Þá hefi eg leyft mér að bera fram breytingartill. Við það ákvæði í lögunum; að sækja þurfi um leyfi til alls konar yfirvalda, ef girða þarf yfir veg. Það er ekki til annars en trafala og getur seinkað verkinu um eitt ár — eða meira. Í öðru lagi, ef leyfið er veitt, þá er það sama og heimild hefði verið fyrir því frá upphafi, en ef neitað er um það, getur það orðið til Þess að ónýta girðingu fyrir heilu héraði. (Sigurður Sigurðsson: Þá er það alt af veitt). Ef svo er, þá er það ekki til annars en að auka óþarfa skriffinsku í landinu. Það eina sem þarf, er að setja það skilyrði. að hlið sé haft á girðingunni alstaðar þar sem girt er yfir veg. Þetta ákvæði hefi eg tekið úr Vegalögunum upp í till. mína.

4. og síðasta breytingartill. mín er í nánu sambandi við breyt.till. næstu á undan, og kemur að eins til atkvæða ef hún verður samþykt.

Eg ætla að eg hafi nú gert það ljóst, hverju eg vil fá framgengt með breyt.till. mínum. Eg skal svo ekki tefja tímann lengur, því að málið er einfalt og óflókið. Má nú hver ráða sínu atkv. fyrir mér.