06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (610)

57. mál, girðingar

Matthías Ólafsson:

Eg ætla að eins að segja nokkur orð út af nýnefnum háttv. þm. Dal. (B. J.) á metrakerfinu. Hann hélt að við værum svo vitlausir, að við hefðum enga hugmynd um að »hund« í orðunum hundrað, hundvís o. s. frv. væri ekki dregið af orðinu hundur. Við vitum og höfum vitað lengi, að þetta »hund« þýðir sama og fjöl- eða marg-, svo að hundvís er sama og fjölvís eða margvís. En þetta sannar ekkert, að orðið »hundstika« sé gott. Enginn maður út um land hefir nokkra hugmynd um, hvað það á að þýða, og ið sama er að segja um in önnur nýnefnin á þessum hlutum, þau eru alveg óskiljanleg.

Eg get ekki séð, að vér séum það meiri menn nú, en forfeður okkar, að vér getum ekki fylgt þeirri venju, sem er frá fornu fari,, að taka upp útlend orð og laga þau eftir málinu, heldur þurfum að búa til ný nöfn, sem þó vilja gefast mjög misjafnlega. Metri er gott orð, og að breyta um það, er ekki til neins, nema þess verra.

Að þetta mál komi nokkurn skapaðan hlut þjóðrækni við, neita eg alveg. Eg vil frábiðja mér aðdróttunum um, að eg sé óþjóðrækinn, þó eg vilji heldur útlendu orðin heldur en afskræmis-orð, þau sem búin hafa verið til. Finst mér fremur ástæða til að bregða þeim mönnum um óþjóðrækni, sem tekið hafa upp útlend nöfn.

Það er eigi annað en sérvizka að vera að búa til ný orð í stað þeirra, sem menn eru búnir að venja sig við. Þessi nýyrði, sem hér er um að ræða, eru heldur ekki annað en hreinasta hrognamál.

Eg er að vísu ekki greindur maður, en mér er ómögulegt að læra þessi orð, eins og t.d. skjóla eða seitill, sem séra Jón á Stafafelli kom fram með.

Þá kastaði fyrst tólfunum, er þau orð komu til að gera glundroðann og vitleysuna enn þá meiri.