06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (618)

62. mál, rafveita fyrir Seyðisfjarðarkaupstað

Framsögum. (Jón Ólafsson):

Nefndin hefir í áliti sínu gert nokkurn veginn fulla grein fyrir tillögum sínum í þessu máli. Eins og frumvarpið liggur fyrir, er það að eins um rafveitu fyrir Seyðisfjarðarkaupstað, en nefndin sá, að þörf var á að gera frumvarpið víðtækara. Bezt mundi hafa verið að semja almenn lög fyrir öll kauptún landsins, en þar þótti nefndinni þó viðsjárvert að taka þau kauptún með, sem partur eru úr hreppi. Því hefir nefndin ekki farið lengra en að láta frumvarpið ná yfir alla kaupstaði og þau kauptún, sem hreppar eru fyrir sig og nefndin kallar sjálfstjórnarkauptún. Og er þetta önnur efnisbreytingin.

Hin efnisbreytingin er 3. breyt.till. nefndarinnar við 1. gr., svo löguð, að stjórnarráðið eftir tillögum eða áliti landsímastjórnar veiti samþykki til rafleiðslna; ella kynnu skemdir að verða á ritsímatækjum. Allar aðrar breytingartillögur eru orðabreytingar, sumar afleiðingar af meginbreytingunum, en sumar málbreytingar. Engin breyt.till. hefir komið frá öðrum en nefndinni og hefir hún til glöggvara yfirlits látið prenta frumvarpið með breyt.till. prentuðum með skáletri eins og það yrði, ef breyt.till. hennar yrðu samþyktar.

Síðan nefndarálitið kom út, hefi eg heyrt ýmsa óska þess, að öll kauptún næðu að komast í frumvarpið, þótt ekki væru sjálfstjórnarkauptún. Það er vel hugsanlegt, að setja megi ákvæði um það inn í frumvarpið við 3. umr., að minsta kosti ákvæði um þau kauptún, sem fengið hafa samþykki hreppsins til að hafa rafleiðslu fyrir sig, eins og eg hef heyrt um Vík í Mýrdal. Vænti eg, að þeir sem óska kunna slíkrar breytingar, greiði atkvæði með frumv. og komi heldur með breyt.till. síðar, því að frumvarpið gerir engum skaða að nokkuru leyti, — þótt þetta ákvæði sé ekki í því.