06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í C-deild Alþingistíðinda. (620)

79. mál, umboð þjóðjarða

Framsögum. (Ólafur Briem):

Það er í 3 aðalatriðum, sem frv. þetta gerir breytingu á núverandi fyrirkomulagi. Fyrsta breytingin er sú, að umsjón þjóðjarða sé falin hreppstjórum undir yfirumsjón sýslumanna. Tilgangurinn með þessari breyt.till. er sá, sumpart að gera eftirlitið auðveldara og sumpart að gera það áhrifameira. Það kom til athugunar í nefndinni, hvort ekki væri rétt að hafa frumvarpið víðtækara — láta það ná til allra þjóðjarða, eins þeirra, sem nú eru beint undir umsjón sýslumanna. Í fjórum sýslum landsins er því nefnilega svo farið með þjóðjarðirnar, að þær standa undir beinu eftirliti sýslumanna. Þessar sýslur eru: Vestmannaeyjar, Gullbringusýsla, Barðastrandasýsla og Strandasýsla. Nefndin komst þó að þeirri niðurstöðu, að gera enga breytingu á núverandi fyrirkomulagi í þessum sýslum, enda er það mjög svipað því fyrirkomulagi, sem hér er farið fram á.

Önnur breytingin er viðvíkjandi borgun á eftirgjaldi jarðanna. Í ábúðarlögunum frá 12. Janúar 1884 er svo ákveðið, að kúgildaleiga falli í gjalddaga á haustin fyrir Mikjálsmessu, en landskuld í lok fardagaársins. Hér er farið fram á, að gjalddagi verði sá sami fyrir bæði þessi gjöld, nefnilega 31. Des. ár hvert.

Svipað ákvæði gildir nú um nokkurn hluta landssjóðsjarða, nefnilega kirkjujarðirnar. Þetta gerir innheimtuna greiðari og er líka sanngjarnt, þar sem menn fyrir þennan tíma hafa fengið ársafurðir af jörðunum.

Í þriðja lagi er farið fram á það í frumvarpinu, að umboðslaunin sé lækkuð úr 162/3% niður í 6% og er það nokkur fjársparnaður fyrir landssjóð. Það er enn eitt atriði, sem kom til athugunar í nefndinni. Það var viðvíkjandi því, hvort lögin ættu að ganga í gildi strax í næstu fardögum, eða ekki fyr en jafnóðum og umboðin, sem nú eru, losna. Meiri hluta nefndarinnar þótti réttara að láta þau ekki ganga í gildi fyr en jafnóðum og umboðin losna.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Eg vænti þess að frumvarpið sé til bóta og nái framgangi hér á þinginu.