06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í C-deild Alþingistíðinda. (624)

97. mál, fátækralög

Flutningsm. (Jón Jónsson). Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) ætlaði að sjá um það, að þetta frumv. fái ekki að ganga hljóðalaust í gegn um deildina. Eg get ekki séð, að þær ástæður, sem hann hefir borið fram, séu veigamiklar. Fátækranefndin og borgarstjóri hafa í bréfi til okkar þm. sýnt fram á það, að eins og ástandið er nú, þá er þetta ákvæði fátækralaganna, sem hér er farið fram á að breytt verði, mjög ósanngjarnt gagnvart Reykjavík. Það er nefnilega algengt, að efnalausir menn þyrpast hingað til bæjarins með fjölskyldu sina án þess að hafa nokkra von og því síður vissu um að geta fengið atvinnu. Afleiðingin af því er sú, að þeir verða oft að leita hjálpar til fátækranefndarinnar þegar eftir komu sína. Það er algengt að menn koma sjúkir og krefjast þess að verða lagðir á sjúkrahús á kostnað fátækrasjóðsins. Það hefir jafnvel komið fyrir, að menn hafa komið hingað sjúkir og félausir með vitund hreppsnefndar sinnar, lagst hér á sjúkrahús og fátækrasjóður Reykjavíkur svo orðið að greiða 1/3 hluta legukostnaðarins. Það er nú auðsætt, að það er óréttmætt, að bærinn skuli ekki, þegar svo á stendur, eiga fulla endurgjaldakröfu á hendur viðkomandi sveitafélögum fyrir það fé, sem út hefir verið lagt fyrir þessa menn, sem eru bænum alveg óviðkomandi.

Eg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta. Vona að eins, að þetta mál fái að komast í nefnd eins og öll önnur mál hér á þinginu hafa fengið.