06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (626)

97. mál, fátækralög

Guðmundur Eggerz:

Jafnvel þótt eg sé á móti þessu frumvarpi, álít eg það ekki nema sjálfsagða kurteisi, að lofa því að ganga til nefndar eina og venja hefir verið með öll önnur mál hér í deildinni.

Eg er eindregið á móti stefnu þessa frumvarps. Eg skal benda á það, að þegar fátækralögin voru samþykt hér á þinginu 1905 vakti það fyrir löggjafanum með því ákvæði, sem nú á meðal annars að breyta með frumvarpi þessu, að dvalarsveitin ætti ekki endurgjaldsrétt hjá framfærslusveitinni nema til 2/3 hluta, að með þessu móti væri trygging fengin fyrir því, að dvalarsveit gætti hófs í styrkveitingum til þurfalinga. Þessi trygging fellur burt ef frumvarp þetta vergur að lögum, þar sem dvalarsveitin getur krafist endurgjalds af framfærslusveit þess þurfalings af öllum inum lagða styrk.

Það er algengt að mjög margt yngra fólk flytur úr sveitunum til kaupstaðanna og kemur svo aftur eftir nokkur ár, atvinnulaust og heilsulaust. Frumvarp þetta er því æði ósanngjarnt í garð sveitanna. Það má ekki minna vera en að kaupstaðirnir taki þátt, eins og hingað til hefir verið, í framfærslu þurfalinga annara hreppsfélaga meðan þeir dvelja í kaupstöðunum.

Nái þetta frumvarp samþykki þingsins, er og miklu meiri hætta á því, að þurfalingar verði hraktir og hrjáðir stað úr stað, þar sem hægt er að krefjast þess, að þeir verði fluttir á framfærslu-. Sveitina þegar búið er að leggja fram 100 kr., en því skilyrði slept í núgildandi lögum, að það sé einnig bersýnilegt, að þurfalingurinn sé kominn á stöðugt sveitarframfæri. Af þessum ástæðum mun eg greiða atkvæði á móti frumvarpinu á sínum tíma, en eg sé ekkert því til fyrirstöðu, að málið verði sett í nefnd.