07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (637)

58. mál, hvalveiðamenn

Matthías Ólafsson:

Þó þetta mál að mínu áliti sé ekki neitt mikils vert, þá hefir samt verið talað mikið um það hér í deildinni og orðið þar mörgum manni mikils vert. Við 2. umr. gerði eg grein fyrir skoðun minni og atkvæði mínu. Bar eg þá upp spurningar, sem eg tel mig ekki enn þá hafa fengið svar upp á. Það var sagt hér í deildinni, að Norðmenn hefðu ekki fengið neinar skaðabætur, þegar hvalveiðarnar voru bannaðar þar. Þetta var sagt, en engin sönnun kom fram um það, að þeir hefðu ekki getað fengið skaðabætur, hefðu þeir krafist þeirra. Þeir hafa ekki höfðað mál út af þessu og því óvíst, hvort þeim hefði verið dæmdar skaðabætur eða ekki. Vil eg ekki fara að tala um það nú, heldur leggja það til, að tíminn þangað til lögin koma í gildi, verði lengdur til áramótanna 1917 og 1918. Ef hann yrði framlengdur þannig, er engin hætta á neinni málssókn af hendi hvalveiðamanna.

Eg er samþykkur háttv. nefnd að ástæða sé til þess að friða hvalinn, en vil að eins ekki láta gera það nú þegar af þessum ástæðum, sem eg hefi áður sagt, af því að eg óttast málssókn af hendi hvalveiðamannanna, sem engin ástæða væri til, ef lögin gengu ekki í gildi fyr en um áramótin 1917 og 18.

Eg sagði áðan, að afleiðingar þessa máls væru nú þegar orðnar miklar hér í deildinni. T. d. hefir það verið upplýst, að hvalveiðamenn í Suður-Múlasýslu færu á fætur kl. 2 á nóttunni til þess að éta sveskjur til varnar móti lífsýki, og aðrar slíkar mikilsverðar upplýsingar hafa komið hér fram. Enginn hefir þó haft annað eins gagn af þessu máli og eg. Því ekki að eins mér, heldur allri komandi ætt minni hefir verið lofað eins miklu af andarnefjuketi og við gætum torgað. Þessu lofaði háttv. 2. þm. S.Múl. (G. E.) og hugsa eg að hana ætli sér að efna það. En af því að eg er ekki maður eigingjarn, þá ætla eg nú að gefa honum upp þetta loforð, því að eg hygg að honum muni veitast örðugt að efna það. Hann hefir um nóg að hugsa, þó hann fari ekki líka að sjá mér og ættmönnum mínum fyrir andarnefjuketi. Andanefjur eru mestu óþægðarskrattar og myndi reynast erfitt að smala þeim og snúningasamt að eltast við þær fyrir mann, er jafnmikilvæg störf hefir á hendi og háttv. þingmaður. Auk sýslumannsstarfanna hefir hann líka að gegna störfum sínum á Alþingi, sem eg ætla ekki að neinn efist um að séu afaráríðandi, og svo hefi eg líka heyrt að hann cenceraði við frönskupróf hjá Vinnukonum fyrir austan. Með öllum þessum mikilvægu störfum hygg eg, að honum muni veita erfitt að efna loforð sitt við mig og því ætla eg að gefa honum það upp.