07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í C-deild Alþingistíðinda. (641)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Framsögum. (Matthías Ólafsson):

Háttv. deild er það kunnugt, að nefndinni, sem var falið að athuga þetta mál, var einnig falið skylt frum., nefnilega frumv. um fiskiveiðasjóð Íslands.

Bæði þessi frumvörp hafa það sameiginlegt, að báðum er þeim ætlað að koma sjávarútveginum að gagni, en um aðferðina til þess ber þeim ekki saman, þar koma þau í bága hvort við annað. Nefndin hefði helzt kosið, að sektum og andvirði upptæks afla yrði skift jafnt milli þessara tveggja sjóða, en við þóttumst sjá það fyrir, að ef við legðum til að breyta frumvarpinu t. d. í þá átt, þá gæti svo farið, að það yrði báðum frumvörpunum að falli. Okkur var það ljóst, að ekki getur langur tími liðið þangað til við Íslendingar verðum að auka landhelgisgæzluna að miklum mun, og töldum því hyggilegt að nú þegar yrði byrjað að safna fé til þess.

Nefndin hefir öll orðið sammála, og óskar einungis eftir því, að háttv. deild taki málinu vel.