07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í C-deild Alþingistíðinda. (671)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Halldór Steinsson:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir tekið fram mest af því, sem eg ætlaði að segja, svo að eg hefi ekki miklu við að bæta.

Eg verð að segja, að eg varð forviða á að sjá slíkt frumvarp sem þetta koma fram á þinginu. Hér stendur í 1. gr.:

Engum kaupmanni, verzlunarmanni, veitingamanni eða þjónustufólki þeirra skal vera leyfilegt að selja eða afhenda tóbak til neyzlu börnum eða unglingum yngri en 16 ára.

Við þetta er það að athuga, að það geta komið fleiri til greina en kaupmenn og veitingamenn og þeir aðrir, sem taldir eru upp í frumvarpinu. En þó að eins væri um þá eina að ræða, hvernig geta þeir vitað um aldur barns í hverju einstöku tilfelli. Annaðhvort yrðu þeir að taka trúanleg orð barnsins, eða þá hreint og beint heimta skírnarvottorð þess. Geta allir séð, að slíkt yrði vafningasamt og hlægilegt í framkvæmdinni.

Auk þess, þó lögunum yrði fylgt út í æsar, hefðu unglingar óteljandi tækifæri til að fara í kringum þau. 15 ára drengur gæti fengið 16 ára kunningja sinn til að fara inn í búð og kaupa fyrir sig tóbak. Í fám orðum sagt, eg held að ekkert sé unnið með frumv.

Eg játa, að háttv. flutningsmönnum hefir gengið ið bezta til, því enginn neitar að tóbaksnautn hafi skaðleg áhrif á alla, ekki sízt unglinga. En eg lít svo á, að það sé fyrst og fremst verka við foreldra og uppeldisstofnana að útrýma tóbaksnautn barna, og náist enginn árangur á þann hátt, held eg að engin þvingunarlög, sízt önnur eins pappíralög og þessi hlytu að verða, gæti haft nokkur áhrif.

Eg hefi ekkert á móti því, að málið yrði sett í nefnd, ef með því móti væri hægt að laga það eitthvað. En eg hefi ekki mikla trú á því.