07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (672)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Jón Ólafsson:

Herra forseti ! Eg get að miklu leyti fallið frá orðinu aftur, því að flest af því, sem eg ætlaði að segja, hefir þegar verið tekið fram af þeim tveim háttv. þingmönnum, er síðast töluðu.

Eg er samdóma þeim um, að það mundi ekki verða annað en pappírsgagn að frumvarpinu svo úr garði gerðu, og því mundi aldrei verða framfylgt. En eg verð að játa, að mér er hlýtt til málsins, og vil eg ekki drepa það strax. Vil eg styðja að því, að það komist í nefnd, svo að fundin verði betri ráð.

Gæti eg hugsað mér, að væntanleg nefnd kæmist að niðurstöðu í þá átt, að banna algerlega aðflutning á cigarettum, sem eru mjög skaðlegar, einkum fyrir unglinga og kvenfólk.

Það hefir verið sýnt fram á, að þetta framvarp, svona lagað, muni verða gersamlega óframkvæmanlegt. En eg held, að öllum foreldrum, sem eiga börn á unglingsaldri, muni verða hlýtt til þess, því að tilgangurinn er góður; að eins að tækist að finna framkvæmanlegan veg til að ná honum. Það mundi ekki vera til neins að sekta seljendurna, því að það mundi verða farið í kring um það. Hitt væri nær að sekta foreldrana, þegar börn þeirra sjást reykja. Það gæti orðið aðhald fyrir þá. — Eg bendi að eins á þetta.