07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í C-deild Alþingistíðinda. (674)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Tryggvi Bjarnason:

Sumir hafa ráðist allóþyrmilega á þetta frumv., og verð eg að játa, að það er alla ekki aðgengilegt eins og það er. Ef það ætti að koma að nokkrum notum, yrði það að ganga töluvert lengra. Það sjá allir, að þó kaupmönnum og veitingamönnum sé bannað að láta börnum tóbak í té, er það til lítils meðan öllum öðrum er það leyfilegt. Væri farið að semja lög um þetta efni, ættu þau að ganga mikið lengra en þetta frv.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að ekki væri auðvelt fyrir kaupmenn að sjá á unglingum, hversu gamlir þeir væru. Við því mætti gera með því að láta þá hafa skriflegt skírteini í höndunum frá foreldrum eða umráðamönnum þeirra, þegar þeir kæmu í búðir til verzlunar, um, hvað þeir ætla að verzla og fyrir hvern, ef um þessa vöru væri að ræða.

Eg álít mjög íhugunarvert, að kasta frumvarpi þessu frá sér, þar eð það er mikils um vert að fá tóbaksnautn unglinga minkaða. Hljóta allir að sjá, að gott væri, ef hægt væri, að draga úr tóbaksnautninni, því hún gerir engum gott, en mörgum fremur ilt og kostar þess utan mikla peninga. Mætti ef til vill koma fram sektum við foreldra þeirra og aðra, er létu tóbak af hendi við börn.

Álit eg sjálfsagt að málið sé sett í nefnd.