07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í C-deild Alþingistíðinda. (675)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Magnús Kristjánsson:

Það er máske ekki mikil ástæða til að setja sig upp á móti þessu frumvarpi. Það er líklega meinlaust eg gagnslaust. En það er annað, sem mér virðist íhugavert, það er stefnan, þessi bannlagastefna, sem virðist vera svo rík í deildinni og virðist sýkja hvern af öðrum. Bann er lagt við hverjum hlut. Það er neyzlubann, atvinnubann og yfir höfuð alls konar bann.

Get eg ekki séð að þetta stefni í þá átt, sem við þykjumst vilja, að hver einstaklingur sé sem frjálsastur bæði til orða og athafna, að svo miklu leyti sem það ekki skaðar aðra. Sérstaklega virðist mér óviðfeldið að þingið geri mikið að því að skipa fyrir um, hvers menn neyta. Verði gengið lengra en orðið er í því efni, er ekki gott að sjá, hvar staðar nemur.

Hvað þessu máli viðvíkur, álít eg þann veg beztan, að menn reyni að koma þeirri hugsun inn hjá börnum og unglingum, að tóbaksnautn sé skaðleg. Skólar og uppeldisstofnanir eiga að gangast fyrir því. Mér er kunnugt um, að gagnfræðaakólinn á Akureyri hefir unnið mjög að þessu. Og er mér óhætt að segja, að það hefir borið mikinn árangur þar. Álít eg heppilegt að þessi stefna haldi áfram og líklegra að hún beri góðan árangur, en þó þingið færi að semja þvingunarlög í þessu efni.

Við þekkjum allir gömlu söguna um forboðna ávöxtinn. Hygg eg að unglingar muni verða þeim mun sólgnari í nautnina, því meiri erfiðleikum sem það er bundið að bundið að veita sér hana.

Eg mun í þessu máli, sem öðrum, þar sem farið er fram á að svifta menn frjálsræðinu, vera tregur til þess að ljá atkvæði mitt eða liðsinni.