08.08.1913
Neðri deild: 29. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í C-deild Alþingistíðinda. (687)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Magnús Kristjánsson:

Jafnvel þótt eg hafi verið algerlega mótfallinn þessu frrumvarpi í fyrstu, þá get eg nú sætt mig við það með breyt.till. nefndarinnar. Þótt eg álíti, að þannig lagaðar samþyktir, eins og hér er gert ráð fyrir, muni ekki ná tilgangi sínum, mun eg samt ekki setja mig beinlinis móti því, að frumvarpið verði samþykt, því eg treysti á að héraðastjórnir, þær sem hér eiga hlut að, muni vera færar um að ráða málinu til heillavænlegra úrslita fyrir alla hlutaðeigendur. Takmörkin verða öll önnur en upprunalega og er það mikils vert. Enn fremur er það til stórra bóta, að Akureyri hafi jafnt atkvæði um samþyktina sem sýslunefndirnar. Þar með er girt fyrir það, að nokkur veruleg hætta geti staðið af samþyktinni, því að eg geri ráð fyrir því, að bæjarstjórnin hafi næg áhrif til þess að sjá um, að málið verði vandlega rætt og athugað áður en frá því verður gengið til fullnustu.