11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í C-deild Alþingistíðinda. (723)

57. mál, girðingar

Framsögum. (Eggert Pálsson]:

Háttv. þm. Dal. (B.J.) vildi sýna fram á það, að 14 háttv. þm. hér í deildinni hafi greitt atkv. gegn þessum till. meiri hluta nefndarinnar á þgskj. 334, 2. liðnum. En eg álít, að hér sé ekki rétt með farið. Það greiddu aldrei 14 manns atkv. gegn þessum lið, því að það atriði, sem í honum felst, kom aldrei undir atkvæði, og gat ekki komist að vegna þeirrar ruglingslegu atkvæðagreiðslu, sem á undan var gengin, og eiga menn þess vegna eftir að greiða atkvæði um það nú. Það þurfti sem sé að gera breytingar í frumv. frá því sem það var við atkvæðagreiðsluna við 2. umr., til þess að háttv. deild gæti staðið sig við að senda málið frá sér til háttv. efri deildar, og frumvarpið væri ekki deildinni hreint og beint til vanvirðu. Og að koma frumv. aftur í sæmilegt horf, það hefir nefndin leitast við með breyt.till. sínum. Og í það horf kemst það, ef háttv. deild samþykkir breyt.till. meiri hlutans 2, lið jafnt sem hina. Þar sem þessi sami hátt. þm. hefir nú borið fram breyt.till. um, að fella niður síðari málsgrein 9. greinar, án þess að setja nokkuð í staðinn, þá vill meiri hl. landbúnaðarnefndar í þess atað hleypa inn í frumvarpið nýjum lið, þgskj. 334, 2, og er hér um allverulegan ágreining að ræða. Ástæðan til þess að meiri hl. nefndarinnar heldur fast við breyt.till. sína á þgskj. 334, 2. lið, er sú, að hann álítur nauðsynlegt að gera mönnum sem léttast fyrir að girða um lönd sín. En ef þetta verður ekki samþ., þá er alt eins og áður og engin trygging fyrir því, að menn geti komið í framkvæmd girðingum, fremur en nú er, þar sem ýmislegir krógar og smáhlykkir ráða mörkum, nema því að eins að þeir sleppi svo og svo miklu af eigin landi endurgjaldslaust.

Háttv. þingm. hélt því fram, að nóg trygging, að því er þetta snertir, lægi í 8. gr. frumv., þar sem gert er ráð fyrir því, að hægt sé að þvinga nágrannann til að taka. þátt í girðingarkostnaðinum. En þetta er alveg misskilningur. Þetta kemur ekkert krókunum við á landamerkjum yfirleitt, og 8. gr. á að eins við girðingar milli túna eða engja, en 9. gr. á við landamerki yfirleitt, hvort sem tún eða engjar eða jafnvel að eins bithagi liggur að þeim. Háttv. þm. hefir ruglað þessum greinum saman, sem eru þó talavert ólíkar í eðli sínu. Það getur verið, að tún eða engjar sé beggja megin girðingar, en það þarf auðvitað alla eigi að vera. Honum þótti það hart, að úttektarmenn skuli vera einráðir í þessum málum, og áleit ekki víst að þeir tækju ávalt gildar ástæður eiganda um þann og þann blett, sem um væri að ræða. Það getur verið, að slíkt geti komið fyrir, en eg sé enga ástæðu til þess að gera þeim slíkar getsakir, að þeir muni ekki beita sanngirni yfirleitt svo í þessum efnum sem öðrum. Auðvitað getur það átt sér stað, að manni sé á einhvern hátt óþægilegt að landspilda, sem hann á, falli, af því að girðingin þarf að vera bein inn, fyrir girðingum hjá öðrum. En sé svo, getur hann treyst úttektarmönnum til þess að taka sanngjarnt tillit til alikra óþæginda, svo að fullar bætur komi fyrir. En séu ástæður hans ekkert annað en þrái, fyrirsláttur eða hégómi verða þær vitanlega ekki teknar til greina.

Um breyt.till. á þgskj. 320 hefi eg þegar lýst skoðun meiri hl. nefndarinnar. Hún lítur svo á, að það sé engin þörf á því, að breyta vegalögunum að þessu leyti. Það er satt, að það kostar dálita fyrirhöfn, að útvega, sér þetta leyfi til þess að girða fyrir veg og hafa hlið á, en mikil er hún ekki. Það þarf ekki annað en að skrifa nokkrar línur og óska þess, og ef það er gert með dálitlum fyrirvara, þá þarf ekkert að stranda á því. Það er auðvitað, að ef menn rjúka til að undirbúa slíkar girðingar, áður en þeir sækja um leyfið, og það fæst svo ekki, þá geta menn haft tjón eða óþægindi af því. En slíkt á ekki og þarf ekki að koma fyrir. Ef um slíkt leyfi er sótt, er eg sannfærður um það, að stjórnarvöld fara ekki að synja um það, ef engin skynsamleg ástæða er til þess. En hitt er jafnvist, að stjórnarvöldin gætu orðið neydd til þess að taka í taumana, og skal eg taka til dæmis ef fara ætti að þvergirða veginn á hverjum landamerkjum á akbrautinni hér austur. Eg tel nú að vísu ekki líklegt að mönnum detti slíkt í hug, en kæmi það fyrir, þá þarf að vera til svona lagaákvæði, svo að hægt sé að koma í veg fyrir slíkt. Því að þótt hægt sé að opna hliðin, sem þannig yrðu sett, af hestbaki, þá hjálpar það ekki þeim, sem eru með stórar lestir eða marga vagna, þeir þyrftu jafnan af baki að fara og halda hliðunum opnum meðan vagnlestin fer í gegn, og mundi slíkt baka mönnum afar-mikla fyrirhöfn og óþolandi tímatöf.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) gat þess, að mikið væri um hlið á veginum undir Eyjafjöllum. Eg kannast við það að svo sé, en umferðin er ekki neitt svipuð þar, og á veginum hér austur eða öðrum akbrautum, enda mundi eg hafa talið það rangt, að leyfa þau hlið, ef hún væri það. En það væri líka hins vegar rangt, að leyfa þau ekki, jafnlítil umferð og þarna er.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Þetta er nefndinni alls ekkert kappsmál, en hún telur tillögu hv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) og hv. þm. Dal. (B. J.) með öllu óþarfa, og álítur að ákvæði vegalaganna megi vera eins og þau eru í þessu atriði. Það geti ekki á neinn hátt valdið tjóni eða skaða.