11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í C-deild Alþingistíðinda. (724)

57. mál, girðingar

Bjarni Jónsson:

Eg gat átt von á mörgu í dag, eins og oftar, en tæpast þó á því, að eg yrði vændur um það, að segja ósatt frá atkvæðagreiðslu. Það er öllum vitanlegt, að atkvæðagreiðsla var fullljós við 2. umr., þar sem 14 hv. þm. greiddu atkv. með því, sem í fólst brottnámi þessa ákvæðis, sem eg legg til að slept verði. Þess vegna eru það hrein og bein ósannindi, að þetta hafi eigi verið borið upp undir atkv. Enda þykir mér hart af skrifara að segja þetta; hann ætti að sýna hæstv. forseta aðra kurteisi, en svo. Því að hvers vegna mundi hann hafa leitað leyfis deildarinnar til þess að þetta mætti koma til atkvæða, ef eigi hefði verið áður felt sama atriði, sem meiri hl. vill nú fá samþykt þvert ofan í ina fyrri atkv.greiðslu. — Þá var hitt, að 8. gr. hafi engin áhrif á þetta mál. Það er rétt, að hún tekur eigi nema til girðinga milli túna og engja, en menn geta nú viljað girða um fleira. Menn geta meira að segja fengið girðingasótt, eins og aðrar sóttir, en hitt er annað mál, að búvitið á eftir að sanna að slíkar girðingar borgi sig. Og þegar ekki er um tún og engi að ræða, játar meiri hl. nefndarinnar sjálfur, að of langt sé gengið í frumv. (sjá nál.). Eitt af því sem mest er óþolandi við þetta frumv., er það, ef á að fara að neyða menn til þess að láta af höndum t. d. slægjubletti, sem geta verið dýrmætari en talsverðir peningar, — af því að þeir þurfa endilega að lenda utan girðingar. Réttur til engja og beitar er þannig beinlínis tekinn af þeim. Það skilur hver sem er læs, að eignarréttur og yfirráð yfir þeim og þeim landsskika er umsvifalaust tekinn af mönnum, ef úttektarmönnum býður svo við að horfa og þóknast að bæta þeim það upp með einhverju öðru í staðinn. Eg vona að mönnum skiljist það, að þessi grundvallarregla er ekki annað en ræningjaháttur, er gengur í berhögg við gildandi lög og hugmyndir um eignarréttinn, og meðan hann er í lögum hafður, hjálpar þetta ekki. Annað mál væri, ef menn vildu afnema eignarrétt og erfðarétt, sem löggjöf síðustu tíma er nú raunar farin að hræra í. Nú er hinn maðurinn, sem fær stykki úr annars mann slandi inn fyrir girðingu sína. Afnotarétturinn á að haldast, nema til slægna og beitar, en ef annar maðurinn ristir alt sitt torf á blettinum, hvar verða þá slægjurnar handa hinum. Það sjá allir, að »eitt rekur sig á annara horn« hér. Þar sem mönnum kemur saman um að girða beint, þarf enga löggjöf um það, en svona lög er engin heimild til að gefa. Það er annað mál, þótt til sé eignarnám, þegar nauðsyn krefur til vega eða annara almenningsnota, en að hver angurgapinn, sem fær girðingasótt, hafi vald til að ræna aðra menn landi þeirra, það ætti ekki að koma til mála.

Háttv. meiri hl. nefndarinnar hefir hér meira beitt kappi en forsjá, en eg vona að þeir 14 háttv. þm., sem móti þessu voru siðast, verði það enn, og eg hefi beðið um nafnakall um tillöguna um, að fella burt þennan óþverra úr 9. gr., til þess að það verði sýnt, að menn breyti ekki skoðunum sínum á eignarréttinum frá degi til dags.