11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í C-deild Alþingistíðinda. (741)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögum. meiri hl. (Lárus H. Bjarnason):

Örfátt. Háttv. þm. Dal. (B. J.) vildi ekki kannast við, að þetta frv. væri spor í rétta átt og enga uppreisn sá hann í því fólgna oss til handa, enda sagði hann engrar uppreisnar þörf, þar sem enginn hefði orðið til að forsvara gerðir Fálkaforingjans. En alt er þetta tóm villa. Eða hefir þingmaðurinn ekki lesið neitt danskt blað eftir 12. Júní? Veit hann ekki, að Danir forsvara fánatökuna því nær undantekningarlaust, og að jafnvel einstaka Íslendingar, svo sem ráðherra., gera mjög lítið úr henni. Hver veit, hvenær Fálkamaðurinn tekur bláhvítt flagg næst og hvar honum kann að slá niður, úr því að dönskum og íslenzkum stjórnendum kemur því nær saman um herferð hans. Og úr því að svo er ástatt, hvernig getur þá nokkur heilbrigður maður sagt, að engin uppreisn væri fólgin í því að girða fyrir líka endurtekning.

Annars situr það sízt á háttv. þingm. Dal. (B. J.) að veifa siglingafána hátt. Vér áttum kost á ágætum kjörum 1908 og ef vér hefðum tekið þeim, þá mundum vér nú innan skamms hafa fengið siglingafána, en háttv. þingm. Dal. varð þá einn með öðrum til þess að setja »slagbrand« fyrir það mál. Sá slagbrandur varð þó ekki haldbetri en svo, að 1912 rann brandurinn út í svo kallaðan bræðing og haustið 1912 varð bræðingurinn að svo kölluðum grút. Siglingafáni er eðlileg afleiðing af sjálfræði landsins. Þegar landið verður sjálfrátt, þá fáum vér siglingafána, og vonandi verður landið það áður en langt um líður, þó að slysalega tækist til 1908.

Annars skal eg fúslega játa réttmæti tillagna háttv. minni hluta að hugsjóninni til. En eins og framkvæmd er lítilsvirði án neista af hugajón, þannig er hugsjón lítilsverð, ef ekki er nokkur von um að koma henni í framkvæmd, en eg hefi litla von um að Hans hátign konungurinn mundi staðfesta siglingafána, enda þyrfti auk þess við viðurkenningar annara ríkja, sem þó líklega stæði ekki á, er staðfesting konungs væri fengin.

Eg er ekki jafnhræddur við Ed. og háttv. þingmaður, vona að frumvarpinu reiði vel af einnig þar, ef byggja má á orðum manna á annað borð.

Eg tel ekki ástæðu til að svara hv. þm. N:Ísf. (Sk. Th.). Sérataklega vil eg ekki deila við hann um siðferðislegan rétt þjóða til að mega njóta sín. Siðferðislegur réttur hefir mikið að segja, en aðallega fyrir hvern einstakan; hans gætir því miður miklu síður í breytni þjóða hverrar við aðra. Þeirra breytni hverrar við aðrar er oft miklu líkari tafli en hreinum viðskiftum.

Það mun vera rétt hermt hjá háttv. þm. N: Ísf., að í álitsskjali hans standi, að neðri deild hafi samþykt siglingafána 1911, en ekki alþingi, og hefir mér þá yfirsést þar.

Það var aðallega viðburðurinn 12. Júní, sem varð til þess, að mér rann blóðið til skyldunnar um fánamálið. Það fyrirverð eg mig ekki fyrir að segja, og má, vera að eg renni ekki fyr undan merki voru en háttv. þingm. Dal. (B. J.), þó að eg sé ekki jafn slagorðaríkur og hann um það né önnur mál, en eg vil hóf í því sem öðrum málum.

Oss hefir orðið að góðu að byrja með smáum skrefum. Sú hefir raunin að minsta koati orðið í stjórnarbótarbaráttunni. Stjórnarekráin 1874 og upp úr »stöðulögunum« og stjórnarbótin 1903 upp úr stjórnarkránni og loks rann millilandafrumvarpið upp úr inni nýfengnu heimastjórn. Svona gæti farið og mundi fara um fánamálið, enda reiddi því líkt af í Noregi á sínum tíma.