11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í C-deild Alþingistíðinda. (742)

21. mál, íslenskur sérfáni

Ráðherrann (H. H.):

Því hefir verið haldið fram, að ekki væri meiri ástæða til að bera þetta frumv. undir konung en hvert annað frv. frá þingmönnum. Það held eg að sé æði skjóthugsað. Það er ómögulegt að komast í kring um það, að málið er annars eðlis heldur en venjuleg frumv. um hversdagslegar ráðstafanir innan lands, t. d. hvort leyfa skuli að þvergirða vegi, stækka verzlunarlóðina á Eskifirði, gera rafveitu á Seyðisfirði eða annað því líkt, sem verið hefir á dagskrá í dag ásamt þessu frumv. Fáni er tákn þess valds, sem konungurinn óneitanlega á sinn þátt í, og málið er yfirleitt svo vaxið, að það þarf aðra meðferð heldur en venjulegt þingmannafrumvarp. Hvort sem það er nefnt »staðarflagg«, »heimaflagg« eða »landsfáni«, þá er það sjálfsögð kurteisi við konung, að sýna honum að minsta kosti frumvarp í þá átt, áður en það er samþykt af Alþingi.