11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (744)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögum. meiri hl. (Lárus H. Bjarnason):

Hæstv. ráðherra sagði fátt nýtt í ræðu sinni. Hann sagði, að konungur hefði átt að fá að átta sig á þessu frumv. áður en það yrði samykt af Alþingi. Eg hefi svarað því fyrir löngu: konungur er búinn að átta sig. En hafi hann ekki áttað sig eins vel og ráðherra kysi, þá er lítill vandi fyrir hæstv. ráðherra að setja sig í samband við konung. Hann einn getur það — en ekki þingnefnd.

Hæstv. ráðherra sagði, að þetta frumvarp hefði átt að koma frá stjórninni. Eg vildi óska, að hæstv. ráðherra hefði lagt slíkt frumvarp fyrir þingið. En ef átt hefði að bíða eftir því, þá held eg að biðin hefði orðið nokkuð löng. Og eftir því sem mér skilst á bréfi hæstv. stjórnar til forsætisráðherrans danska, þá er eg enn fremur hræddur um, að ekki hefði verið riðið hart úr hlaði.

Annars verð eg að endurtaka það með háttv. þm. Dal. (B. J.), að það er nauðsynlegt að þetta bréf verði lagt fram á lestrarsalinn. Af bréfinu má vafalaust sjá, ekki að eins, hvernig tekið hefir verið í þetta mál af dönskum stjórnarvöldum, heldur og hvað stjórn vor hefir lagt til um það.

Hæstv. ráðherra sagði, að frumvarpið væri óbrúkandi, af því að það segði ekkert um, hvernig ætti að nota fánann.

Eg hefi þó getið þess hvað eftir annað, að eg ætti við fána eða flagg, sem flagga. mætti með á þurru landi, í höfnum inni og jafnvel í landhelgi. Þó mundu menn, er nota vildu fánann utan hafna, en í landhelgi, líklega verða að sýna danska ríkisfánann, ef eftirlitsskip krefðist. Það eru ekki til gleggri ákvæði í dönskum lögum um notkun danska fánans.

Annars er óþarfi að vera að tala um, að nefndin hafi hrapað að þessu máli. Það hefir þvert á móti haft svo góðan undirbúning, að önnur mál hafa ekki haft hann betri. Í nefndinni sátu 5 menn úr fjórum flokkum, og eftir því sem fulltrúar flokkanna sögðu, var það borið undir hvern flokk og þá fyrst ráðið, er svör flokkanna komu. (Ráðherra: Þetta er ekki rétt). Þetta er ekki rétt, segir hæstv. ráðherra, en eg get vitnað um þetta til meðnefndarmanna minna.

Út af svanasöng háttv. þm. Dal. (B. J.), eða hanasöng eins og mér liggur við að kalla ræðu hans, get eg verið fáorður. Hann er nú líka dauður, þótt ekki sé nema um stundarsakir, sem betur fer. Háttv. þm. var ekki sjálfum sér sammála. Hann sagði að fánahertakan væri ofbeldisverk og um það er eg honum samdóma, en þó vildi hann ekki gera neitt til að sporna við því, að slíkt verk yrði endurtekið. Það kalla eg mótsögn. Ef þetta frumvarp verður að lögum, þá er þó loku skotið fyrir það. Og þetta, að byrja smátt, er ekki óþekt í lífi einstaklinganna, fremur en í lífi þjóðanna. Eg þekki mann, sem ekki er alveg óskyldur háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann byrjaði sem aukakennari með lágum launum, endaði sem hálaunaður »diplomat« og. væri þar ekki leiðum að líkjast. Ekki get eg heldur verið háttv. þm. sammála um það, að ósigur hugsjóna sé jafnaðarlega að kenna ístöðuleysi forvígismannanna. Eg held að hann sé að minsta kosti jafn oft að kenna óskynsamlegum öfgum, enda er það lögmál allra öfga, að þær rjúka aftur í nasir þeim sem hvæstu þeim. (Bjarni Jónsson: Þetta er mikill misskilningur).

Eg skal ekkert fullyrða um, hvort frv. þetta nái framgangi hjá konungi, enda þó að eg búist fastlega við því, en auðvitað verður þá að bera það fram fyrir konung í tíma.

Það sem skilur mig og háttv. þm. Dal. (B. J.), er það að hann er að búa til sprengiefni fyrir stjórnina. En það ætti hann ekki að gera, ekki víst nema það yrði hættulegt fyrir hann sjálfan; hver veit nema hann eigi eftir að verða ráðherra? (Bjarni Jónsson: Eg er ekki »Tron-prætendent«, en það er satt, að þetta gæti orðið hættulegt fyrir þá). Það er ekki svo langt skref frá hálaunuðum »diplomat« upp í ráðherrasessinn.

Það er annara undarlegt, hvernig þeir fallast í faðma í þessu máli háttv. þm. Dal. (B. J.) og hæstv. ráðherra (H. H.). Báðir vilja þeir drepa málið. Annar, háttv. þm. Dal., vill drepa það, af því að honum finst það ganga of skamt, en hinn, hæstv. ráðherra, af því að honum finst það ganga of langt. Mundum vér, sem milli þeirra atöndum, ekki hafa hitt meðalhófið? Skeri atkvæði úr um það.

Með því umr. höfðu staðið lengi og komið var nón, frestaði forseti fundi til kl. 5 síðd.

Kl. 5 síðd. var fundi haldið áfram. Forseti skýrði frá, að forseti Ed. hefði endursent sér:

Frv. til laga um breyting á lögum nr. 18, 9. Júlí 1909 um styrktarsjóð handa barnakennurum (354), og mælst til þess að það yrði lagt fyrir Nd. að nýju.

Forseti skýrði frá, að útbýtt hefði verið í deildinni:

1. Frv. til laga um breyting á lögum nr. 18, 9. Júlí 1909, um styrkarsjóð handa barnakennurum. Eftir 3. umr. í Ed. (354).

2. Nefndaráliti um frumvarp til laga um viðauka og breyting á lögum um bygging, ábúð og úttekt jarða, frá 12. Jan. 1884. Frá minni hluta nefndarinnar.

Forseti skýrði frá, að útbýtt hefði verið frá Ed.:

Frv. til laga um breyting á lögum nr. 32, 20. Okt. 1905, um málaflutningsmenn við landayfirdóminn í Reykjavík. Eftir 3. umr. í Nd. (355).