11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í C-deild Alþingistíðinda. (759)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Nefndin í bankamálunum hefir leyft sér að koma fram með þetta frv. Svo stendur á því, að langt er komið að lána út 3. veðdeild, að eins 263 þús. og 900 kr., eftir af henni og þar af lofað 100 þús. kr. Ef þessu yrði ekki sint af þinginu, lítur ekki út fyrir annað en veðdeildalán verði að hætta. Veðdeildirnar hafa lánað út alls 8077 300 kr. Í umferð eru samtals 6.595.800 kr. Mismunur: 1.481.500 kr., sem búið er að borga til baka. Útdregin bréf nema þess utan 224.700 kr., sem greiðast eiga 2. Janúar 1914. Að vísu hefir nefndin ekki mikla von um, að mikið gagn verði að þótt þessi veðdeild verði stofnuð, því að nefndin hefir ekki séð sér fært að leggja til að taka sömu leiðina sem tekin var 1909, sem sé að láta landssjóð taka lán til verðbréfakaupa. Vextir eru háir erlendis sem stendur, og eigi lítur út fyrir að þeir lækki í bráð, svo að varla er nú að búast við, að þessi heimild komi að verulegu liði, eftir því hvað erfiðlega hefir gengið að fá landssjóðslánið til þess að kaupa fyrir bréf 3. veðdeildarinnar. Ef landið tæki lán til að kaupa bréfin, væri það mjög hagfelt, því að bankinn sætir harðari stimpilgjalds kjörum utan Danmerkur, heldur en landið. Ef veðdeildin aftur á móti yrði að hætta, gæti af því leitt inn mesta voða fyrir landið; húsabætur féllu niður sýslu- og sveitarfélög gætu ekki fengið lán o.s.frv. Og Íslandsbanki hefir ekki reynst nein styrkstoð í þessum efnum. Eigi að síður er ekki hægt að segja fyrir, hvað hægt kunni að vera að gera í framtíðinni, og vona eg því að háttv. deild taki frumv. vel.

Frumvarpið er dálítið breytt frá veðdeildarlögunum, eins og fram er tekið í nefndarálitinu. Ef mönnum þykja einhverir annmarkar á frumvarpinu, er hægt að gera br.till. til 2. umr.