11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í C-deild Alþingistíðinda. (765)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Kristinn Daníelsson:

Af því að mér þykir þetta frumv. talsvert athugavert, vildi eg leyfa mér að vekja athygli háttv. deildar á þeim atriðum, sem mér þykja sérstaklega varhugaverð. Hér á að innleiða það, að borgarstjórinn verði kosinn af öllum atkvæðisbærum borgurum bæjarins. Sams konar aðferð hefir verið viðhöfð á öðrum svæðum. Um hana hafa verið ærið misjafnir dómar og jafnvel heyrst raddir um að hún gæfist fremur illa, þó að það hafi verið á þeim svæðum, þar sem kosningin snertir meira hvern einstakling en hér getur verið um að ræða. Ef þetta verður leitt í lög, er hætt við að það verði ekki afnumið aftur, jafnvel þó að menn kynnu að sjá að það væri ekki heppilegt. Mér virðist að áhrifum kjósenda á borgarstjórakosninguna sé nokkurn veginn borgið með þeirri tvöföldu kosningu, sem nú er viðhöfð, þar sem þeir velja þá 15 menn, er þeir treysta bezt, í bæjarstjórn og bæjarstjórnin kýs aftur borgarstjórann. Með þessu móti hafa kjósendurnir óbein áhrif á það, hvers konar maður verður kosinn borgarstjóri. Enda er þetta fyrirkomulag í samræmi við það sem gerist í öðrum sveitarstjórnum. Þar er það venjan, að hreppsnefndirnar kjósa oddvitann, en starf hans samsvarar að sínu leyti starfi borgaratjórans þó að í minni stíl sé. Við þetta bætist, að lögin, sem hér er farið fram á að breyta, eru mjög ung, og þessi eina borgarstjórakosning, sem fram hefir farið eftir þeim, gefur ekki tilefni til þeirrar breytingar. Eg hygg, að í stöðuna hafi valist nýtur maður, að minata kosti hefir bærinn tekið miklum framförum í hans tíð.

Það sýnist í fljótu bragði mæla með framv., sem háttv. flutningsm. (L H. B.) sagði, að þetta væri einkamál bæjarins og borgurunum væri þetta mikið áhugamál. En þetta er ekki einkamál Reykjavíkurbæjar, heldur nær það til allra bæja á landinu, því að þeir mundu heimta sams konar fyrirkomulag innan akamma og sveitirnar mundu koma á eftir. Auk þess er hagur og sæmd Reykjavikur hagur og sæmd alls landsins. Landið á enga eign eins dýra og höfuðstaðinn, þess vegna verður hann að ganga á undan í öllum greinum. Málefni höfuðstaðarins eru málefni alls landsins.

Eg vildi að eins vekja athygli á þessum atriðum, sem mér þykja athugaverð. Eg sé ekki að neinar umbætur séu fólgnar í því að haga borgarstjórakosningunni á þennan hátt. Eg hygg þvert á móti, að miklu meiri trygging sé fyrir því, að borgarstjórakosningin takist vel, ef þeim mönnum er falin hún, sem borgararnir treysta bezt að fara með öll vanda- og velferðarmál bæjarins.