11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í C-deild Alþingistíðinda. (767)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Það er komið fram, sem eg hafði ekki búist við, að þingmaður utan Reykjavíkur hefir lagst á móti frumvarpinu, þó að hann hafi reyndar gert það með allra mestu varúð. Ástæður hans hans kann eg ekki að meta. Hann segir þetta varhugavert nýmæli. En í rauninni er þetta ekkert nýmæli. Allir hreppsnefndarmenn eru kosnir beint af hreppsbúum, í hreppsnefndina, og oddvitinn er alt af einn maður úr hreppsnefndinni. Þess vegna er oddvitinn í raun og veru kosinn af kjósendunum. Í Hafnarfirði, þar sem háttv. 2. þm. G.K. (Kr. D.) þekkir vel til, er og gert ráð fyrir því, að borgarstjórinn geti verið úr hóp bæjarstjórnarmanna. Þetta er því ekkert nýmæli hér á landi og því síður annarsstaðar, eins og upplýst hefir verið af háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.), og eg get bætt því við, að í Sviss, sem talið er að bezt sé stjórnað af öllum löndum í Norðurálfunni, eru flestir embættismenn kosnir beint af borgunum.

Háttv. þm. (Kr. D.) sagði, að ef þetta fyrirkomulag reyndist illa, þá yrði því ekki breytt, en það er rangt. Eg hafði aldrei ætlast til að þetta yrðu eins konar stjórnarskrárlög eða grundvallarlög, enda má líka breyta þessháttar lögum. Eg ber ekki inn minsta kvíðbeyg fyrir því að lögin verði lengi í gildi, ef það kæmi í ljós að þau reyndust illa. Ef svo færi, mundu borgararnir verða fyrstir til að hefjast handa að fá lögunum breytt.

Ekki þarf heldur að óttast það, að aðrar sveitastjórnir mundu heimta sömu skil sér til handa. Það mundu þær því að eins gera, að fyrirkomulagið reyndist vel, og þá væri það ekki hræðsluefni.

Eg sagði, að eg áliti að stjórnin hefði ekki haft rétt til að veita borgarstjóranum atkvæðisrétt í bæjarstjórnarmálum. Bygði eg það álit mitt á því, að í lögum um bæjarstjóra í Hafnarfirði, frá sama degi, er það beint tekið fram, að hann skuli ekki hafa atkvæðisrétt í bæjarstjórninni, nema hann sé einn af inum kosnu fulltrúum hennar. En það að stjórnin hefir úrskurðað að borgarstjóri skuli hafa atkvæðisrétt í bæjarstjórn Reykjavíkur, hefir vakið megna óánægju í bænum.

Eg sagði, að það væri ekki ástæða til að óttast verra val eftir kosningarfyrirkomulagi; því sem farið er fram á í frumvarpinu, heldur en því fyrirkomulagi, sem nú er, enda heldur ekki geysimikið komið undir þessari kosningu, þar eð borgarstjóri hefir eigi annað verk með höndum, en að framkvæma ályktanir bæjarstjórnar og að stjórna fundum hennar. Að vísu getur hann til bráðabirgða rift úrskurði bæjarstjórnar, en að eins þar til er stjórnarráðið gerir út um málið. En þó þetta vald standi á pappírnum, hefir því aldrei verið beitt við bæjarstjórnina í Reykjavík, fremur en sams konar ákvæði við sýslunefndir.

Hér við bætist, að borgarstjóri er að eins 1/18 hluti bæjarstjórnar, svo að ólíklegt væri að hann kæmi nokkurri óhæfu fram, enda þótt kjör á honum mistækist, enda verður að sækja lof og leyfi stjórnarráða til fjölmargra gerða bæjarstjórna, og það myndi því taka í taum ana, ef hætta væri á ferðum.

Það er svo langt frá að eg óttist verri kosningu með þessu fyrirkomulagi, að eg held þvert á móti að það sé auðveldara að beita misjöfnum agitationum með því fyrirkomulagi, sem nú er. Því smærri sem hringurinn er, því auðveldara er að koma við »agitationum«. En eins og eg hefi tekið fram, er ekki hundrað í hættunni, því bæði hefir borgarstjórinn sáralítið vald og ef hann fyndi upp á að misbeita því, getur stjórnarráðið tekið í taumana.

Það er ekki ólíklegt, að við flutningsmenn tökum til athugunar til 3. umr. till. háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) um að borgarstjóri fái frestandi neitunarvald.

Annars væri það og vert athugunar, hvort ekki væri rétt að lögleiða sama sjálfræði til handa bæjarstjórnum og sýslunefndir hafa nú að lögum. Að minsta kosti er það óviðkunnanlegt að það skuli gilda alt annað um sjálfræði bæjarstjórna, heldur en um sjálfstæði sýslunefnda. En út í það skal eg ekki fara frekar að þessu sinni, enda veit eg ekki til þess að stjórnin hafi misbrúkað vald sitt yfir bæjarstjórnum.